Góð hugmynd: Dagatal fyrir aðventuna

Samverudagatal. Laufin eru 24 samanbrotnir miðar. Inni í þeim eru hugmynd um það sem fjölskyldan getur gert saman fram að jólum.

Dæmi um dagatal sem allir geta búið til. Laufin eru 24 samanbrotnir miðar. Inni í þeim eru hugmyndir eða uppástungur um það sem fjölskyldan getur gert saman á aðventunni og fram að jólum.

Hvernig dagatal hefur þú keypt um jólin í gegnum árin? Margir hafa í gegnum tíðina keypt dagatal með súkkulaðibitum innan í sem gott er að maula einn eða ein úti í horni. En fleiri og skemmtilegri leiðir eru til.

Sálfræðingurinn Erla Björnsdóttir og viðskipta- og markaðsfræðingurinn Þóra Hrund Guðbrandsdóttir  hafa búið til jóladagatal fjölskyldunnar þar sem nammi hefur verið skipt út fyrir samverustundir fjölskyldunnar. Í jóladagatalinu, sem kom út í fyrsta sinn í fyrra, er fróðleikur um jólasveina, jólahefðir í öðrum löndum og hugmyndir að samveru fjölskyldunnar fyrir hvern dag á aðventunni.

Samvera án rafmagns

2d27299ab4-200x260-o-2

Dæmi um samverustund einn daginn er rafmagnslaus dagur þar sem fólk er hvatt til að vera saman án rafmagns, síma og sjónvarps. Þeir foreldrar sem eru með símann gróinn fastan við eyrað þurfa ekki að óttast að verða sambandslaus lengi. Nóg er að stundin vari í hálftíma eða allt eftir því hvað fólk vill.

Rætt er við þær Erlu og Þóru um jóladagatal fjölskyldunnar í 6. tölublaði Bleikt. Þær segja markmiðið með dagataldinu að fá fólk til staldra við í jólaundirbúningnum og njóta tíma með fjölskyldunni á hverjum einasta degi. Lögð er áhersla á annað en efnisleg gæði. Krakkar kjósi alltaf athygli fjölskyldunnar og tíma með foreldrum sínum umfram annað.

Erla segir ekki aðalatriðið að verja öllum stundum með börnum sínum. „Oft taka verkefnin í dagatalinu ekki nema tíu mínútur eða korter en börnin verð asamt ótrúlega glöð.“

Búðu til þitt eigið dagatal

Jóladagatöl geta verið af ýmsum toga. Þú getur búið til þitt eigið dagatal. Hér er hugmynd að einu slíku.

Leitaðu að fallegri grein og þurrkaðu hana. Klipptu niður 24 litla miða. Skrifaðu eina hugmynd að einhverju skemmtilegu á hvern einasta miða.

Dæmi um hugmyndir að dagatali á samverutré:

  • Í dag ætla börnin að kenna mömmu og pabba að byggja hús í Minecraft
  • Í dag ætlum við að baka saman brauð
  • Í dag ætlum við að heimsækja ömmu og afa

Brjóttu miðana saman. Þú getur annað hvort skrifað dagsetningu á miðana eða keypt klemmur með númerum á sem geta táknað dagana. Klemmdu miðana á greinarnar. Gaman er að hafa miðana hvíta eða græna því þá líkjast þeir laufum á tré. Nú geturðu sett tréð með miðunum á í fallegum vasa á eldhúsborðið eða á góðan stað inni í stofu.

Þú getur líka búið dagatal úr miðum sem þú klemmir á band eða snæri sem hengt hefur verið upp á vegg.

Þú getur bókað að börnin munu kíkja á miðana á þessu dagatali áður en þau skoða hvað jólasveinninn setti í skóinn útí glugga.

Dagatal fyrir aðventuna er góð hugmynd.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd