Það er gaman að lesa bækur. Stór hluti nýjasta tölublaðs tímarits Heimilis og skóla fjallar um mikilvægi bóklestrar barna og þess að foreldrar lesi með börnum sínum. Enda opnast börnum nýr heimur þegar þau læra að lesa. Mikilvægt er að halda þeim dyrum opnum með góðri bók.
Í tímaritinu er fjallað um upplestrarkeppni, sumarlestur í Sæmundarskóla í Reykjavík, velt því upp hvernig hægt er að stuðla að eflingu læsis og marg fleira. Greinin fræinu sáð sem fjallar um lestrarátak Ævars Þórs Benediktssonar, leikara og rithöfundar, er sérlega áhugaverð enda framtak hans meiriháttar.
Fílíbommbomm…
Mörg börn lásu bækurnar um Óla Alexander Fílibommbomm á 8. og 9. áratug síðustu aldar – sum börn lásu bækurnar sjálf en þau yngri hlustuðu á foreldra sína lesa þær. Munið þið ekki mörg eftir bókunum um Óla Alexander Fílíbommbomm?
Það var norski barnabókahöfundurinn Anne-Cath Vestly sem skrifaði þessar stórskemmtilegu bækur um ævintýri Óla. Fimm bækur komu út á norsku á árunum 1953 til 1958. Eiginmaður Anne-Cath teiknaði bækurnar. Vestly skrifaði miklu fleiri bækur en þær um Óla hljóta að vera þekktastar á Íslandi.
Kíkið á markaðina
Við rákumst á eintak af bókinni Óli Alexander Fílibommbommbomm á skemmtilega nytjamarkaðnum á Hofsósi sem starfræktur er í húsi barnaskólans á sumrin. Markaðir eru frábærir, enda má þar finna ýmsa dýrgripi sem annað fólk er hætt að nota. Það góða við markaðina er að þar eru vörurnar ódýrar.
Það er frábær hugmynd að fara á nytjamarkað og finna bók til að lesa fyrir börnin – eða fá börnin til að lesa. Við mælum með bókunum um Óla Alexander. Sögur Vestly af honum verða hluti af æskuminningunum.