Jólasveinar: Hvar getum við hitt þá?

Íslensku jólasveinarnir eru talsvert öðruvísi og meiri prakkarar en góðlátlegi rauðklæddi karlinn. MYND / Árbæjarsafn

Íslensku jólasveinarnir eru talsvert öðruvísi og meiri prakkarar en góðlátlegi rauðklæddi karlinn. MYND / Árbæjarsafn

Jólasveinar eru nú meiru karlarnir. Þessir skrýtnu og skeggjuðu bræður eru sagðir koma ofan af fjöllunum í desember á hverju ári og dvelja í byggðum í þrjár vikur þar til þeir fara heim á ný.

Börnum finnst fátt skemmtilegra en að hitta jólasvein, oftast fleiri en einn. Þótt Grýla jólasveinamamma sé skelfilegt skass, þá er hún líka spennandi.

Hvaðan koma jólasveinar?

Jólasveinarnir eru margir og getur verið svolítið truflandi að í sumum löndum er einn jólasveinn en fjöldi bræðra hér á landi.

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir að rauðklæddu jólasveinana megi rekja til heilags Nikulásar eða Hagios Nikólaos eins og hann hét í heimalandinu. Nikulás þessi er sagður hafa verið biskup í borginni Mýra í Tyrklandi á 4. öld e.Kr. Hann var meðal annars verndardýrlingur sæfarenda, kaupmanna, menntasetra og barna. Löngu seinna varð hann þekktur sem gjafmildur biskup, klæddur purpuralitaðri kápu sem deildi út gjöfum til bágstaddra en einkum til barna.

Vildu ekki kaþólskan jólasvein

Eftir siðaskiptin vildu þeir sem voru Lúterstrúar ekki láta kaþólskan dýrling sinna þessu og bjuggu til sviplíkan karl sem þeir kölluðu Afa Frosta. Á 17. öld bárust siðir og sagnir um Nikulás með hollenskum innflytjendum til Ameríku. Gælunafn hans á hollensku var Sinterklaas og í Ameríku fékk hann á 19. öld nafnið Santa Claus.

Teiknarar blönduðu saman heilögum Nikulási og Afa Frosta, settu hann í skærrauðan jakka og í rauðar buxur með hvítum loðkanti. Á höfuðið fékk hann jólasveinahúfu.

Kannist þið ekki við karlinn?

Íslensku jólasveinarnir eru einstakir

Á Vísindavefnum segir hins vegar að íslensku jólasveinarnir eigi sér rætur í íslenskum þjóðsögum og bakgrunnur þeirra allt annar en heilagur Nikulás og Afi Frosti.

Þeirra var fyrst getið í Grýlukvæði frá 17. öld og eru jólasveinar þar sagðir illskeyttir. Talið er að það hafi verið gert til að hræða börn til hlýðni.

Í bókinni Saga daganna segir að til séu heimildir um allt að 80 nöfn jólasveina og jólameyja. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, sem mörg börn lásu hér áður fyrr og truflaði svefn þeirra, voru nefndir 13 jólasveinar. Þeir urðu ekki ósköpu þekktir fyrr en Jóhannes úr Kötlum samdi kvæði um þá og gaf út ásamt teikningum árið 1932. Um sama leyti fóru þeir að koma fram í jólabarnatíma útvarpsins.

Í umfjöllun Vísindavefsins segir að þessir illskeyttu hrekkjalómar urðu með árunum sífellt elskulegri og svo fór að þeir fóru að gefa börnum í skó í glugga. Þessi siður barst með sjómönnum sem sigldu á Norðursjávarhafnir fyrir 1930 en varð ekki almenntur fyrr en um 1960. Með aðstoð Þjóðminjasafnsins og Ríkisútvarpsins komst svo sá siður á að gefa börnum í skóinn frá 12. desember og fram á aðfangadag á hverju ári.

Jólasveinar á Þjóðminjasafni

Það er gaman að hitta og spjalla við jólasveina. Það er hægt að hitta jólasvein á Þjóðminjasafninu á hverjum degi frá því þeir koma til byggða og fram á aðfangadag. Þjóðminjasafnið hefur staðið sig vel í kynningu á gömlu íslensku jólasveinunum í gegnum árin. Viðburðirnir eru daglegir og hafa þeir orðið veglegri með hverju árinu.

Nú eru sérstakar jólasýningar á Þjóðminjasafninu við Suðurgötu og ratleikur í boði ásamt mörgu fleiru frá því snemma í desember. Í Safnahúsinu við Hverfisgötu eru gömul jólatré til sýnis í lestrarsal hússins.

Þjóðminjasafnið er líka með sérstaka jólasíðu með upplýsingum um jólasveina og jóladagatal, jólasiði, jólamat og jólaskraut.

Allir viðburðirnir á Þjóðminjasafninu eru ókeypis.

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd