Gaman að föndra með laufblöð á haustin

_MG_3756 copy

Marglit laufblöð að hausti.

Náttúra landsins breytir um ham á haustin og litirnir verða allsráðandi. Það er ágætis dægrastytting og útivera að safna laufblöðunum. Þegar heim er komið má svo búa til eitt og annað úr laufblöðunum, þurrka þau, búa til falleg kort eða myndir, setja í ramma og margt fleira.

Svona þurrkið þið laufblöðin

Það er best að þurrka laufblöð fljótlega eftir að þið komið heim með þau. Náið í smjörpappír. Leggið laufin á pappírinn og setjið síðan annan smjörpappír ofan á. Náið í nokkrar þungar bækur í bókaskápinn og setjið þær ofan á smjörpappírinn því fargið sléttar laufin. Bíðið síðan í nokkrar klukkustundir. Það er allt í lagi að kíkja öðru hverju á laufin og kanna hvort þau eru orðin þurr.

_MG_3753 copy

Límið laufin í plast

Þegar laufblöðin eru orðin þurr þurfið þið bókaplast með lími á. Þið klippið tvo jafn stóra hluta af bókaplasti í þeirri stærð sem þið viljið. Takið annan helminginn og leggið hann á rönguna, þ.e. látið límið snúa upp. Raðið laufblöðunum á límið á bókaplastinu eftir því mynstri sem þið viljið. Þegar þið eruð búin að setja laufin á plastið náið þið í hinn helminginn af bókaplastinu. Setjið plastið varlega ofan á laufblöðin og þrýstið því niður. Við þetta límast báðir helmingarnir saman.

Órói úr laufum

Það er sniðugt að klippa plastið út í hringi eða ferninga og jafnvel í þríhyrninga. Nú er þetta orðið fallegasta skraut sem þið getið hengt upp. Það er líka flott að búa til óróa úr föndrinu.

Listaverk úr laufum

Það er líka góð hugmynd að mála fallegt þurrt laufblað með pensli og þrýsta því síðan á hvítt blað. Með laufblöðum í mörgum mismunandi litum getið þið búið til fallega mynd í ýmsum litum. Það er sannkallað náttúrulistaverk.

Plöntubók

Það er líka góð hugmynd að safna laufblöðum af mismunandi trjám, blómum og ýmsu öðru úr náttúrunni. Límið það sem þið hafið tínt og þurrkað á hvít blöð. Skrifið við hvert sýnishorn af hvaða tré laufin eru og hvaða blóm þetta eru. Gatið síðan blöðin og setjið þau í fallega möppu. Smám saman verður til skemmtileg plöntubók með þurrkuðum blómum og teikningum af laufum og öðru úr náttúrunni.

Þið getið fundið ýmis hjálpartæki til að gera plöntubókina flotta og auðveldað ykkur leitina að helstu jurtum landsins. Gott er að hafa Íslensku plöntuhandbókina við hendina. Þið getið líka flett plöntunum upp á netinu á vefsíðunni Flóra Íslands.

Ýmis góð ráð um laufblöð má finna á vefnum Náttúra.is

 

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd