Fyndið leikrit: Kólumbus í Norðurhöfum

nordurhofum

Leikritið Kólumbus í Norðurhöfum er nýtt verk sem sýnt verður í Menningarhúsinu Gerðubergi. Verkið var frumsýnt í gær (föstudaginn 18. nóvember) og verður sýnt aftur á morgun, sunnudaginn 20. nóvember. Ekki er að sjá í viðburðadagatali Borgarbókasafns að verkið verði sýnt eftir það. Ekkert kostar á sýninguna í Gerðubergi klukkan 15:00. Flutningur leikritsins tekur aðeins 30 bráðskemmtilegar mínútur.

Leikritið fjallar um Kristófer Kólumbus og félaga hans, sem ætla að sigla til Indlands en fara óvart í norður og enda á Íslandi. Þar hitta þau innfædda og kynnast meðal annars sérkennilegri matarmenningu þeirra.

Markmið verkefnisins er að efla samfélag spænskumælandi fólks á Íslandi og að finna fjölbreyttar leiðir til að læra íslensku.

Leikararnir eru frá Spáni, Serbíu, Þýskalandi, Belgíu, Kúbu og Íslandi. Leikstjóri er Ólafur Guðmundsson.

Leikritið er liður í verkefninu Tungumál gegnum leiklist og er það á vegum félagsins „Hola – Félag spænskumælandi á Íslandi.“

Hristu saman leikhóp

Fram kemur í lýsingu á Kólumbus í Norðurhöfum á vef Borgarbókasafns að síðastliðið vor var haldið leiklistarnámskeið með spænskumælandi fólki á Íslandi sem Ólafur stýrði. Á námskeiðinu var hristur saman leikhópur sem síðan vann að hugmyndum og efni fyrir leiksýninguna. Ólafur tók að sér að halda hugmyndum hópsins saman og skrifa stutt verk sem hópurinn æfði síðan.

Félagið fékk styrk frá Reykjavíkurborg til þess að vinna fjölmenningarlega leiksýningu og fékk til liðs við sig Ólaf Guðmundsson leikara og leikstjóra til að halda utan um verkefnið ásamt formanninum Maríu Sastre.

Auk „leikarann“ taka konur úr Múltíkúltíkórnum fullan þátt í uppsetningunni. Stjórnandi kórsins er engin önnur en hin ævarandi glaðlynda Margrét Pálsdóttir.

Leikið er á íslensku og sungið á spænsku og íslensku.

Sömdu eigin texta

Leikararnir áttu sjálfir hugmyndina að leikritinu og sömdu textana í samvinnu við leikstjórann.

Generalprufa var á leikritinu á fimmtudag. Tveir ungir strákar á lokaæfingunni hlógu mikið og urðu mjög glaðir þegar verkinu var rennt í gegn í annað sinn.

Nú er um að gera og skella sér í leikhús!

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd