Ykkar eigið fuglahús!

Hafið þið prófað að smíða fuglahús en horft síðan á smágerðan kofann og velt fyrir ykkur hvað arkitektinn hafi eiginlega verið að hugsa sem teiknaði þennan óskapnað? Hvurslags fuglar vilja búa í þessu greni?

Nú jæja! Nú getið þið andað léttar.

Á Árbæjarsafni leynist skjólgóður lundur þar sem slegið verður upp smíðavelli sunnudaginn 30. maí 2021. Þar verður hægt að læra að smíða falleg fuglahús sem laðar að fiðruðu dýrin úr háloftunum.

Smiðirnir á Árbæjarsafni segja að smíðavöllurinn sé óhefðbundinn því í stað kofa verði byggð lítil fuglahús til að hengja upp í tré.

Gestir og gangandi á Árbæjarsafni
Gamli Árbærinn á Árbæjarsafni.

Smíðakennari verður á staðnum og allt nauðsynlegt hráefni. Að smiðju lokinni má taka húsin með sér heim og taka á móti öllum smágerðari fuglunum sem vilja kíkja í kotið og verpa. Með hækkandi sól fer hreiðurgerð af stað meðal smávina okkar og því gott að hafa fuglahúsin klár snemma sumars. Með því að skapa fuglum góðar og öruggar aðstæður til þess að verpa eykst fjölbreytileika fuglalífs í borginni og allir njóta góðs af. 

Tvær fuglahúsasmiðjur

Boðið verður upp á tvær smiðjur yfir daginn. Sú fyrri verður klukkan 13:00 en hin klukkan 15:00.

Mikilvægt er að þátttakendur skrái sig í fuglahúsasmiðjuna. Börn þurfa líka aðstoð frá foreldrum sínum eða forráðamönnum. Hver fjölskylda fær að smíða eitt fuglahús

Skráning fer fram í gegnum leidsogumenn@reykjavik.is. Börn greiða ekkert en fyrir fullorðna gildir miði inn á safnið til þátttöku á smíðavellinum.

Smíðavöllurinn er hluti af dagskrá Barnamenningarhátíðar.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd