Frábærlega fjölskylduvæn sýning á verkum Yoko Ono í Hafnarhúsi

Yoko Ono

Listasafn Reykjavíkur sýnir þessa dagana í Hafnarhúsi verk eftir japönsku listakonuna Yoko Ono. Þetta er í stuttu máli sagt frábær sýning fyrir alla fjölskylduna, börn frá fjögurra ára og þá sem hafa viðhaldið sköpunargáfunni og skemmtilegheitunum alveg upp í nírætt. Það er víst að harðgerðustu karlhlunkar breytast í börn á ný sem vilja krassa á veggi þegar þeir kíkja á sýningu Yoko Ono.

Það er eiginlega óþarfi að kynna Yoko Ono. Hún er fædd árið 1933, fagnaði því 83 ára afmæli á árinu og hefur verið starfandi listamaður í heillangan tíma.

Vinsæl sýning

Yoko Ono

Í lýsingu á vef Listasafn Reykjavíkur á sýningunni, sem heitir Ein saga enn, segir að verkin á sýningu Ono fjalli um það að vera manneskja og þau áhrif sem við getum, hvert og eitt, haft á frið í heiminum. Hún býður áhorfendum að taka þátt í sköpun verkanna bæði innan safnsins og utan. Þátttökuferlið hafi byrjað strax í aðdraganda sýningarinnar í Listasafninu.  Meðal annars hafi konur verið beðnar um að senda inn persónulegar sögur af ofbeldi og fólk sem tók með sér brot úr vasa sem hún braut í gjörningi á Kjarvalsstöðum árið 1991 beðið um að koma með þau.

Yoko Ono var viðstödd opnun sýningarinnar en hún var stödd á landinu í tengslum við tengdrun Friðarsúlunnar í Viðey. Tíu ár eru síðan kveikt var á ljósum súlunnar í fyrsta sinn.

Sýning Yoko Ono í Listasafni Reykjavíkur hefur vakið heilmikla athygli og trekkir að. Aðeins fjórum dögum eftir að Ono opnaði sýninguna voru 3.000 gestir búnir að skella sér á safnið og finna barnið innra með sér.

Þótt listakonan hafi ekki kíkt við á safnið þá er aldrei að vita nema hún láti vita af sér endrum og eins.

Yoko Ono

Við anddyri sýningarrýmisins er nefnilega sími á litlum stalli og stóll. Á litlum miða við símann stendur að hann geti hringt upp úr þurru á meðan sýningunni stendur. Gestir verði að svara því það er engin önnur en Yoko Ono sé á línunni. Enginn hafði hringt allan þann tíma sem starfsmaður safnsins hafði setið yfir sýningunni. Það getur því verið svolítið spennandi að bíða eftir hringingunni og svara. Líklegra er vænlegt er að kunna eitthvað fyrir sér í ensku því viðmælandinn kann líklega ekki mikið í okkar ylhlýra. En svo er aldrei að vita. Það er líka óvíst hvort gestir safnsins af yngri kynslóðinni kunni á tólið. Verkið er gamalt, frá árinu 1964 og síminn í samræmi við það, Ericson skífusími með snúru í tólið.

Yoko Ono

Verkin á sýningu Ono eru öll í sama dúr, stórskemmtileg og fríska upp á sálartetrið. Einhvers staðar sagði að þetta sé fyrirmælasýning, það er að segja gestir sýningarinnar eru beðnir um að gera eitt og annað. Og það er sko hvert öðru skemmtilegra. Algjör nýjung á listasýningum!

Yoko Ono

Þegar gengið er fram hjá símanum er næsta verk á hægri hönd verkið „Mamma mín er falleg“. Þar gefst gestum kostur á að skrifa á vegg safnsins minningu um mömmu sína. Ljóst er að gestir safnsins geta auðvitað allir skrifað eitthvað fallegt um mömmu sína og gengið óhikað til verksins. Veggurinn er nefnilega gjörsamlega útkrotaður.

Yoko Ono

Allt annað er af sama meiði. Margir stoppa við verkið „Málverk til að bæta litum við.“ Yoko Ono dró fyrstu línur verksins og var gestum boðið að halda áfram. Verkið er orðið stórkostlegt og afar litríkt.

Yoko Ono

Verkið „Hugsa sér frið“ er stimplaverk. Verkið samanstendur af fjölmörgum landakortum og stimplum handa gestum. Í lýsingu á verkinu segir að gestir geti stimplað orðin „Hugsa sér frið“ eða „Imagine Peace“ á lönd og svæði hvar sem er á kortinu og óska sér friðar. Sýningargestir geta tekið með sér nælu með sömu skilaboðum á fjölmörgum tungumálum.

Yoko Ono

Svo er það verkið „Málverk til að negla í.“ Það er ekki síður skemmtilegt en önnur. Verkið samanstendur af stórri hvítri tréplötu, nöglum og hamri og eiga gestir sýningarinnar að negla nagla í spýtuna. Spýtan er svolítið hörð og því þurfa þeir fullorðnu að hjálpa litla fólkinu að bæta nöglum í verkið.

Á stóru borði í sýningarsalnum eru brot af hvítum bollum og leirtaui. Fram kemur í lýsingu á verkinu að þar sé afrakstur af gjörningi Yoko Ono sem hún framdi á Kjarvalsstöðum og braut þar mikið af bollum og þessháttar eldhúsdóti. Gestir mega setjast niður og setja brotin saman eftir eigin höfði og laga með snærisspottum og límbandi. Viðgerðum verkum má svo raða upp á hillur. Útkoman er frábært samansafn af hvítu leirtaui sem heldur ekki vatni.

Yoko Ono

Yoko Ono

Inn af sýningunni eru svo samstarfsverkefni Ono með íslenskum listamönnum sem tengjast vatni á einn eða annan hátt.

Yoko Ono

Of langt mál er að telja upp öll verkin á sýningu Yoko Ono. Þið hreinlega verðið að skella ykkur og upplifa hana.

Það er ekki hægt að segja annað en: Góða skemmtun!

Listasafn Reykjavíkur er opið alla daga frá klukkan 10:00-17:00 en á fimmtudögum frá 10:00-22:00.

Deilið þessu:

One Response to Frábærlega fjölskylduvæn sýning á verkum Yoko Ono í Hafnarhúsi

  1. Pingback: Frábærlega fjölskylduvæn sýning á verkum Yoko Ono í Hafnarhúsi – Betri fréttir

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd