Frábær Náttúrubarnahátíð á Ströndum

Náttúrubarnahátíð á Ströndum verður á Sauðfjársetrinu í Sævangi helgina 8.-10. júlí. Á hátíðinni er fjölbreytt dagskrá fyrir náttúrubörn á öllum aldri en þar er til dæmis að finna tónlist, töfrasýningu, sirkús, náttúrusmiðjur, fjöruferðir, draugasögur, jóga auk þess sem hægt verður að fara á hestbak, skjóta af boga og margt fleira.

Frítt er á öll atriði hátíðarinnar og óþarfi að skrá sig. Nóg er bara að mæta!

Veitingasala er á Sauðfjársetrinu (Kaffi Kind) alla helgina og er þar nóg úrval af allskonar réttum bæði fyrir grænkera og aðra. Gestum hátíðarinnar býðst að tjalda frítt á Kirkjubóli sem er beint á móti Sævangi en þar er þó ekki eiginlegt tjaldsvæði (ekkert rafmagn). Á Hólmavík er svo frábært tjaldsvæði og ýmsir gististaðir í grenndinni.

„Hátíðin hefst á föstudegi og fer að mestu fram utandyra, svo við hefjum hana alltaf á því að framkvæma veðurgaldur, til að tryggja gott veður um helgina, ekki veitir nú af eins og veðrið hefur verið“ segir Dagrún umsjónarkona Náttúrubarnaskólans.

„Skipulagningin gengur mjög vel og þetta er allt að smella saman. Ég hlakka mjög til, eins og alltaf“ bætir hún við.

Dagskrána má sjá hér fyrir neðan:

Föstudagur 8. júlí
17:00 Fjölskyldu gönguferð í fjörunni
18:30 Setning hátíðarinnar og veðurgaldur
18:30 Hægt að kaupa súpu og grillaðar pylsur (grænmetis og ekki) í Sævangi
19:00 Frábær töfrasýning með Lalla töframanni
20:00 Spennandi Náttúrubarnakviss

Laugardagur 9. júlí
12:30 Sirkús Ananas
13:00 Náttúrufjör: Bogfimi, hestar, eldsmiðja, kajakar, opið hús í tilraunastofunni, skrifað með fjöðrum, náttúrubingó, grillaðar pylsur og fleira
14:30 Yrðlingasmiðja með Þykjó
16:00 Sagnatjaldið í Sævangi
16:30 Fuglafjör: Trítlað um teistuvarpið
17:30 Ísbjarnahræðugerð í Orrustutanga
18:00 Hægt að kaupa grillaðar pylsur og súpu
20:00 Fjölskyldu tónleikar með Svavari Knút
21:30 Drauga- og tröllasögur í Sagnahúsinu

Sunnudagur 10. júlí
11:30 Kiðlingajóga
12:30 Solla stirða og íþróttaálfurinn úr Latabæ koma í heimsókn
13:30 Skemmtileg náttúrusmiðja með Arfistanum
15:30 Fjölskylduplokk

Viðburðinn á Facebook má finna hér: https://www.facebook.com/events/489064549260354 en þar birtast allar helstu upplýsingar tengdar hátíðinni.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd