Rafn og Róbert lærðu af foreldrum sínum

Foreldrar þeirra Rafns og Róberts eru grafískir hönnuðir. Drengirnir hafa smitast af áhuga á grafík og gerðu þeir sjálfir merki kaffihúsins sem þeir ráku á Menningarnótt. Þetta eru tvö k sem standa fyrir Kaffikrakkinn og Kökukrakkinn. MYND / Úr einkasafni

„Börnum finnst gaman að taka þátt í áhugamálum foreldra sinna. Þegar foreldrarnir gera börn sín að virkum þátttakendum þá smitast þau af áhugamálum foreldranna. Ef börnum er hins vegar bannað að vera með þá verður áhuginn enginn,“ segir Jóhanna Svala Rafnsdóttir. Hún er móðir þeirra Rafns og Róberts Ísaks Wintherssona, 10 og 12 ára bræðra sem opnuðu kaffihús heima hjá sér í Bólstaðarhlíð á Menningarnótt – auðvitað með leyfi foreldranna. Rafn hellti upp á kaffið en Róbert sá um meðlætið og gerðu þeir það listavel.

Þetta var annað árið í röð sem vertarnir ungu ráku kaffihús í garðinum heima.

 

Bræðurnir og systir þeirra fylgjast með ástríðukokkinum föður gera heimagerða Subway-loku. MYND / Úr einkasafni

Bræðurnir og systir þeirra fylgjast með ástríðukokkinum föður sínum gera heimagerða Subway-loku. MYND / Úr einkasafni

Smitandi áhugi

Jóhanna Svala segir drengina hafa smitast af áhuga þeirra foreldranna á mat og drykk.

„Við erum mikið kaffifólk, pabbi þeirra ástríðukokkur og við veltum matargerð mikið fyrir okkur. Þegar við unnum fyrir Te & kaffi fyrir tíu árum þá duttum við inn í kaffiheiminn, við veltum mikið fyrir okkur kaffibaunum og lærðum að gera alvöru kaffi. Síðan fengum við okkur góða espressóvél sem gæti í raun sinnt litlu kaffihúsi,“ segir hún.

Jóhanna segir bræðurna hafa gengið á kaffibragðið og fundist kaffipælingarnar spennandi. Upp úr því fór Rafn að læra að hella upp á kaffi og flóa mjólk. Jóhanna hlær þegar hún minnist á það hvað Rafn var áhugasamur. Þau hafi keypt marga lítra af mjólk og hann flóað á fullu. Á skömmum tíma var drengurinn svo farinn að hella upp á betra kaffi en foreldrarnir.

Róbert, sem sá um meðlætið á kaffihúsinu á Menningarnótt, smitaðist hins vegar af áhuga afa síns í Sandgerði á bakstri. Sá er bakari og snýst þar allt um mat og kökur þegar Róbert kemur þangað í heimsókn. Þar fær hann líka að spreyta sig í bakstri og matargerð eins og hann lystir.

 

Leyfið börnunum að spreyta sig

Jóhanna segir mikilvægt að foreldrar verji tíma með börnum sínum og leyfi þeim að spreyta sig á því sem þau langar til, svo sem í eldhúsinu – auðvitað með foreldrum sínum.

„Flestum börnum finnst gaman að vera með mömmu og pabba. En þegar foreldrar eru uppteknir og hafa ekki tíma til að sinna börnum sínum þá verða þeir að snúa hinu daglega amstri upp í eitthvað skemmtilegt. Eins og pítsukvöldin á föstudagskvöldum. Það er gaman að leyfa börnunum að vera með í matargerðinni og láta þau fá verkefni. Það gerðum við og síðast sáu strákarnir um sínar eigin pizzur,“ segir Jóhanna Svala.

Róbert er mikið fyrir það að láta matinn líta út eins og á veitingastöðunum. Hér vegur hann og metur samloku sem hann í hádegismat. Stundum útbýr hann samlokur fyrir systkini sín og vini. MYND / Úr einkasafni

Róbert er mikið fyrir það að láta matinn líta út eins og á veitingastöðunum. Hér vegur hann og metur samloku sem hann gerði handa sér í hádegismat. Stundum útbýr hann samlokur fyrir systkini sín og vini. MYND / Úr einkasafni

 

[ad name=“POSTS“]

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd