Frisbí sem sumir kalla frisbígolf er skemmtilegur leikur. Mörgum finnst gaman að kasta frisbídiski sakleysislega á milli sín. Árið 2001 færðist frisbí upp á annað stig en þá var fyrsti frisbívöllurinn hér á landi tekinn í notkun á Akureyri. Þetta var svolítið frumstæður völlur því þar var kastað í staura. Fyrsti alvöru frisbívöllurinn var tekinn í notkun ári síðar á Úlfljótsvatni. Völlurinn þar var nokkuð veglegri en þar voru heimagerðar körfur úr síldartunnum notaðar til að kasta frisbídiskum í.
Talsvert vatn hefur runnið til sjávar síðan þetta var og eru frisbívellirnir orðnir 23 talsins víða um land. Minni vellir eru líka til. Vellirnir 23 eru opnir allt árið um kring og er hægt að taka leik hvenær sem er. Svo er líka til Íslenska frisbígolfsambandið og er þar hægt að finna ýmsar upplýsingar um frisbígolf.
Stuð á Flúðum
Sumarið 2014 var settur upp 9 brauta frisbívöllur á Flúðum. Völlurinn er rétt við bílastæðið við félagsheimilið á Flúðum og á bak við eþíópíska veitingastaðinn Minilik. Völlurinn liggur í hring með ánni.
Umhverfið við völlinn á Flúðum er skemmtilegt. Ef þið ætlið ekki að taka leik í frisbí er fín skemmtun að fara í smávegis ævintýraferð inn í skóginn. Þar er lítið hús úr tré og ýmis leikföng úr náttúrunni.
Eftir leik í fallegu umhverfi er uppálagt að kíkja við á Minilik. Þar er maturinn ekki aðeins frábært heldur heimsóknin þangað algjört ævintýri fyrir börn.