Hafið þið komið á Þingeyri?
Bærinn er við Dýrafjörð á Vestfjörðum. Það tekur tiltölulega stuttan tíma að keyra frá Ísafirði til Þingeyrar, sérstaklega í góðu sumarveðri.
Eins og allir vita taka Vestfirðirnir marga hillumetra í Íslendingasögunum og Íslandssögunni allri ef út í það er farið. Skammt fyrir utan við bæinn er Haukadalur, en það er að stórum hluta sögusvið Gísla sögu Súrssonar.
Víkingar á Þingeyri
Þingeyingar hafa lagt áherslu á söguna síðustu misserin og má sjá skemmtilegar víkingatengingar þegar komið er í bæinn. Á sumrin er þar til dæmis víkingaskip sem siglir ferðamenn á sumrin. Á hverju ári eru svo haldnir Dýrafjarðardagar og klæða bæjarbúar og aðrir sig þá upp sem víkinga og skylmast með sverðum.
Dýrafjarðardagar voru haldnir á Þingeyri dagana 1.-3. júlí sumarið 2016. Þeir voru að sjálfsögðu í viðburðadagatali Úllendúllen.
En það eru ekki bara víkingar í bænum.
Þingeyri er gamall verslunarstaður og komu þangað sjómenn víða að, franskir duggarar og bandarískir lúðuveiðimenn seint á 19. öld. Pakkhúsið í bænum, sem er afspyrnuflott, var byggt árið 1734 og er það talið vera eitt af elstu húsum Íslands.
Þingeyri er í dag fallegur og rólegur bær við Dýrafjörð og yndislegt að koma þangað í góðu veðri. Þar er frábær íþróttaaðstaða, sundlaug líkamsræktarstöð, íþróttahús og strandblakvellir en líka tjaldsvæði og veitingastaðir. Golfvöllur er líka utan við bæinn og gönguleiðir um slóðir Gísla Súrssonar.
Þrælskemmtilegt leiksvæði
Við grunnskólann þar rákumst við á hressa krakka klifra á flottu en öruggu leiksvæði. Þetta eru nýleg og alveg þrælskemmtileg tæki, risastór og flottur kastali með tveimur turnum með öllu tilheyrandi, meira að segja frábærri rennibraut sem ekki sést víða, klifurgrind, vegasalt og rólur.
Þegar þið komið á Þingeyri er upplagt að skoða Þingeyrarvefinn. Þar má finna fréttir úr bænum og helstu upplýsingar um allt það áhugaverða sem er í gangi hverju sinni.
Ef þið eruð að plana ferð um Vestfirði eða eruð þar og vitið ekki alveg hvað þið ætlið að gera þá er sniðugt hugmynd að leita upplýsinga á vefsíðu Markaðsstofu Vestfjarða. Þar veit fólk uppá 10 hvað er skemmtilegast að gera á Vestfjörðum.
Gagnlegir og áhugaverðir hlekkir: