Ylströndin í Nauthólsvík undir Öskjuhlíð er skemmtilegur staður vetur, vor, sumar og ekki síður á haustin. Þar er þjónustumiðstöð með búningsklefum, baðaðstöðu og veitingasölu (þar er hægt að kaupa ís, sælgæti og gosdrykki). Hægt er að fara í heitan pott og sturtu og þeir hörðustu geta synt út í sjóinn til hliðar við varnargarðinn við ströndina. Á fallegu haustsíðdegi er líka tilvalið að fara niður í Nauthólsvík og setjast í stóru tréstólana ofan við víkina. Stólarnir eru eins og fyrir risa og því verða allir eins og börn við að setjast í þá.
Tóftir við bílastæðin
Nauthólsvík heitir eftir bænum Nauthól sem þar var reistur árið 1850. Taugaveiki kom upp í bænum í kringum 1900 og var hann brenndur. Hægt er að skoða tóftir bæjarins norðan við bílastæðin.
Í síðari heimsstyrjöldinni hafði breski herinn og fleiri herir aðstöðu við Öskjuhlíð. Í Nauthólsvík var aðstaða fyrir sjóflugvélar sem voru notaðar í orrustunni um Atlantshafið. Minnisvarði um norska flugsveit stendur vestan við þjónustuhúss Ylstrandar.
Ævintýrastaður
Frá Nauthólsvík er hægt að fara víða, upp eftir skógarstígum í Öskjuhlíð og meðfram ströndinni til vesturs og inn Fossvogsdalinn alveg í átt að Elliðavatni.
Hvenær er opið? Opið er í hádeginu á miðvikudögum á haustin og er þá hægt að taka sundsprett og með því í sjónum. Það er líka tilvalið að skreppa niður í Nauthólsvík á fallegu haustkvöldi og fleyta kerlingar í víkinni.