Nauthólsvík: fjölskyldufjör á ströndinni

Ylströndin í Nauthólsvík er paradís fyrir prakkara.

Ylströndin í Nauthólsvík undir Öskjuhlíð var vígð árið 2000. Þar er þjónustumiðstöð með búningsklefum, baðaðstöðu og veitingasölu (þar er hægt að kaupa ís, sælgæti og gosdrykki). Hægt er að fara í heitan pott og sturtu. Heit vaðlaug er fyrir börn. Börn geta vaðið í vatni á öruggu svæði innan grjótgarðs. Þeir hörðustu geta synt út í sjóinn til hliðar við varnargarðinn við ströndina. Í góðu sumarveðri getur hitastigið í lóninu innan grjótgarðsins farið í 15-19 °C. Heiti potturinn er 30-39°C heitur

Athyglisvert: Nauthólsvík heitir eftir bænum Nauthól sem þar var reistur árið 1850. Taugaveiki kom upp í bænum í kringum 1900 og var hann brenndur. Hægt er að skoða tóftir bæjarins norðan við bílastæðin.

Í síðari heimsstyrjöldinni hafði breski herinn og fleiri herir aðstöðu við Öskjuhlíð. Í Nauthólsvík var aðstaða fyrir sjóflugvélar sem voru notaðar í orrustunni um Atlantshafið. Minnisvarði um norska flugsveit stendur vestan við þjónustuhúss Ylstrandar.

Frá Nauthólsvík er hægt að fara víða, upp eftir skógarstígum í Öskjuhlíð og meðfram ströndinni til vesturs og inn Fossvogsdalinn í átt að Elliðavatni.

Hvenær er opið? 16. ágúst – 14. maí er opið alla virka daga frá klukkan 11.00 – 13.00 og á laugardögum klukkan 11.00 – 15.00. Aftur opnar á mánudögum og miðvikudögum klukkan 17.00 og er opið til kl. 19.00. Yfir sumartímann er opið á Ylströndinni alla daga frá klukkan 10.00 til klukkan 19.00. Sumartíminn er frá 15. maí – 15. ágúst.

Hvað er í boði?: Heitur pottur, hægt að leika í sandi og vaða og synda í sjónum. Leiktæki eru á svæðinu. Líka er hægt að spila boltaleiki á ströndinni eða fara í gönguferð.

Hvað kostar? Stakt skipti 500 krónur / 10 skipta kort 3500 krónur / Leiga á handklæði er 300 kr. / Leiga á sundfötum er 300 kr.

[ad name=“POSTS“]

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd