Fjölskyldan saman á gönguskíði

gönguskíði, skíðaganga

Gönguskíði er hressandi sport fyrir mæður, dætur og flesta aðra.

Nú þegar hátíðarhöldum er að mestu lokið með tilheyrandi áti og kyrrsetu er tilvalið og eiginlega bráðnauðsynlegt að fá súrefni í lungun og blóðið á hreyfingu. Gönguskíði er tilvalið sport til þess og hentar yfirleitt flestum í fjölskyldunni.

Skíðaganga er hvort tveggja í senn: Erfið keppnisíþrótt sem krefst gríðarlegs úthalds, styrks og tækni og einnig almenningsíþrótt sem ungir sem aldnir geta stundað sér til heilsubótar og yndisauka. Svo geta gönguskíði líka verið hinn besti ferðamáti þegar svo ber undir.

Börn geta lært á gönguskíði um leið og þau fara standa í lappirnar og það er aldrei of seint að byrja meðan fæturnir bera mann. Og fyrir yngstu kynslóðina getur verið ótrúlega gaman og þægilegt að setjast á sleða eða snjóþotu og láta hrausta mömmu eða pabba draga sig. Þá þarf að vísu að gæta vel að klæðnaði og einangrun því kuldaboli getur bitið þó dráttarklárnum hitni í hamsi.

Gönguskíði, skíðaganga – hvar og hvernig?

Gönguskíðaiðkun krefst ákveðins búnaðar þar sem undurstöðuatriði eru skór, stafir og skíði. Talsverður kostnaður getur falist í að kaupa allt slíkt nýtt frá grunni en spara má talsvert með því að kaupa notað. Einhverjar sportvöruverslanir bjóða uppá slíkt en einnig má benda á Facebook-síðuna Notuð og ný skíði til sölu, bland.is og fleiri slíka. Smelltu hér og skoðaðu ágætis leiðbeiningar varðandi stærð skíða og stafa o.þ.h.

Þegar veður og snjóalög leyfa bjóða flest opinber skíðasvæði landsins uppá troðnar gönguskíðabrautir af mismunandi lengdum. Einnig getur verið gaman að fara á gönguskíði á öðrum opnum útvistarsvæðum eins og í Heiðmörk, Laugardalnum eða Klambratúni í Reykjavík eða í Kjarnaskógi á Akureyri. Þegar snjó hefur kyngt niður finnst mörgum skemmtilegast að skella á sig skíðunum fyrir utan dyrnar heima hjá sér og arka útí bláinn.

Fyrir algjöra byrjendur getur verið gott að fá tilsögn varðandi fyrstu skrefin hjá þeim sem reyndari eru. Á skíðasvæðunum hefur stundum verið boðið uppá kennslu og fleiri hafa boðið uppá slíkt. Svo má kíkja á undirstöðuatriðin á YouTube – eins og hérna.

Þetta getur virst flókið í fyrstu en auðvelt er að ná lágmarksfærni sem skilað getur hollri og góðri útvist og ánægjustundum með fjölskyldunni. Njótum vetrarins.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd