Fimm daga Barnamenningarhátíð

Krakkarnir kætast og brosin færast yfir þegar Barnamenningarhátíð færist nær. MYND / Roman Gerasymenko

Krakkarnir kætast og brosin færast yfir þegar Barnamenningarhátíð færist nær. MYND / Roman Gerasymenko

Barnamenningarhátíð verður sett þriðjudaginn 19. apríl klukkan 11 með pompi og prakt í Hörpu. Hún stendur 24. apríl. Áherslan á hátíðinni er margbreytileikinn í íslensku samfélagi.

Rosaleg dagskrá

Dagskráin á hátíðinni er geysilega þétt og flott enda um 150 viðburðir í boði fyrir börn og unglinga.

Viðburðirnir eru svo margir að það er engin leið fyrir okkur að setja þá inn í viðburðadagatal Úllendúllen.

En við reynum. Hér er best að nálgast dagskránna.

Þetta er í sjötta skiptið sem Barnamenningarhátíð er haldin í Reykjavík. Hátíðin var fyrst haldin 19. apríl árið 2010 og er hún nú orðin ein stærsta hátíðin sem haldin er á vegum Reykjavíkurborgar.

Dagskráin á Barnamenningarhátíð fer fram í öllum hverfum borgarinnar, í grunnskólum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum, leikskólum, menningarstofnunum, Ráðhúsinu í Reykjavík og víðar.

Og þótt hátíðin sé kennd við Reykjavík þá verður mikið af viðburðum fyrir börn og unglinga í Kópavogi, Hafnarfirði og í Garðabæ, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi.

Pollapönk á lag hátíðarinnar

Hjómsveitin Pollapönk samdi lag fyrir Barnamenningarhátíðina sem heitir Litríkir sokkar og vettlingar. Það verður flutt á setningu hátíðarinnar í Eldborgarsal Hörpu. 1.450 börn í fjórða bekk grunnskóla borgarinnar flytja lagið með hljómsveitinni en þau hafa æft lagið síðustu daga.

Hátíð fram á kvöld

Í tilkynningu segir að dagskráin í Hörpu stendur fram á kvöld en meðal viðburða eru tónlistaratriði með 700 leikskólabörnum í samstarfi við Tónskóla Sigursveins og glæsileg dansveisla þar sem listdanskólar höfuðborgarsvæðisins sameina krafta sína.

Á Barnamenningarhátíð fer jafnframt fram alþjóðlega sviðslistahátíðin UNGI á vegum  samtakanna ASSITEJ í Tjarnarbíói, Þjóðleikshúskjallaranum og Ráðhúsinu. Á UNGA verða leik- og danssýninga fyrir yngri áhorfendur, fjöldi smærri viðburða á borð við leiksmiðju, leiklestra, sögustundir og margt fleira.

Barnamenningarhátíð á KrakkaRÚV

Hægt verður að fylgjast með viðburðum hátíðarinnar á KrakkaRÚV þar sem ungir fréttamenn úr 8.-10. bekk grunnskóla sinna fréttamiðlun. Um er að ræða samstarfsverkefni  hátíðarinnar og KrakkaRÚV.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd