Akureyri: Bankað uppá hjá Nonna

Nonnahús var byggt fyrir tæpum 170 árum. MYND / Pétur Halldórsson

Nonnahús var byggt fyrir tæpum 170 árum. MYND / Pétur Halldórsson

Hafið þið heimsókn Nonnahús á Akureyri?

Það er góð hugmynd að koma við í Nonnahúsi, banka upp og skoða bernskuheimili rithöfundarins sem skrifaði bækur sem komu út í milljóna upplagi fyrir um 100 árum.

En hvað vitið þið um Nonnahús og Nonna sjálfan sem húsið er kennt við?

Næstum 170 ára hús

Nonnahús er við Aðalstræti 54 a á Akureyri. Það er byggt árið 1849 eða fyrir að verða 170 árum og er húsið eitt af elstu húsunum á Akureyri. Á þeim tíma sem húsið var reist tíðkaðist enn að byggja hús úr torfi og grjóti. Nonnahús var engin undantekning og var torfstofa upphaflega byggð á bakhlið hússins. Hún var rifin árið 1859 og byggð önnuð viðbygging.

Nonnahús er einlyft timburhús með risi. Það stendur á steinhlöðnum og steyptum sökkli og kjallari er undir eldhúsinu.

Húsið var fyrst friðað árið 1977.

Hver var Nonni?

Jón Sveinsson eða Nonni skrifaði 12 Nonnabækur. Þær voru þýddar á 30-40 tungumál.

Jesúítapresturinn Jón Sveinsson eða Nonni skrifaði 12 Nonnabækur. Þær voru þýddar á 30-40 tungumál.

Nonni sem bjó í Nonnahúsi hét Jón Sveinsson. Hann fæddist að Möðruvöllum í Hörgárdal 16. nóvember árið 1857. Árið Árið 1865 fluttist Nonni með fjölskyldu sinni í húsið við Aðalstræti. Hann var þá 7 ára. Á þeim tíma var húsið kennt við Pál nokkurn og kallað Pálshús.

Árið 1869 lést fjölskyldufaðirinn. Móðir Nonna stóð ein uppi með börnin. Eins og tíðkaðist á þessum tíma þegar heimilisfaðirinn lést var heimilið leyst upp og það tekið til gjaldþrotaskipta. Móðir Nonna varð að láta öll börnin frá sér nema Ármann litla, sem kallaður var Manni en hann var um 8 ára.

Nonni var 12 ára þegar þessar hörmungar skullu á fjölskyldunni. Árið eftir andlát Sveins föður Nonna bauðst franskur aðalsmaður til að kostar tvo íslenska drengi til náms. Nonni var annar þeirra og í lok ágúst árið 1870 flutti hann úr Nonnahúsi yfir til meginlands Evrópu. Í fyrstu var drengurinn úti í Danmörku. Þar tók hann kaþólska trú. Eftir ársdvöl í Danmörku hélt Nonni áfram til Amiens í Frakklandi og innritaðist hann þar í latínuskóla.

Nokkrum árum eftir að Nonni flutti út fór Manni litli bróðir hans sömu leið. Móðir þeirra bræðranna fluttist hins vegar til Kanada eins og svo margir Íslendingar um þetta leyti og giftist hún þar aftur.

Nonnabækurnar

Nonni lauk námi sínu árið 1878 og lærði og kenndi víða í Evrópu. Hann lagði stund á bókmenntir, heimspeki og guðfræði í Frakklandi, Belgíu, Hollandi og Englandi og kenndi í Ordrup í Danmörku. Hann gerðist jesúíti og varð jesúítaprestur.

Fyrsta bókin af Nonnabókunum kom út árið 1913. Bækurnar skrifaði Nonni á þýsku. Bækurnar urðu 12 talsins og kom sú síðasta út árið 1948. Fram kemur á alfræðivefnum Wikipedia að þær hafi verið þýddar á allt að 40 tungumál og gefnar út í mörgum milljónum eintaka.

Nonnabækurnar fyrstu fjalla um Ísland, heimahaga Nonna á Norðurlandi og bróður hans Manna. Í næstu bókum á eftir er fylgst með ævintýrum Nonna um heiminn. Nonni sjálfur kom aðeins tvisvar til Íslands eftir að hann fór utan til náms.

Nonni og Manni deyja

Nonni lést í loftvarnarbyrgi í loftárás Köln í Þýskalandi í seinni heimsstyrjöldinni 16. október árið 1944. Hann var þá 87 ára. Nonni var grafinn í Köln. Manni bróðir hans lést hins vegar löngu áður eða árið 1885. Banamein hans voru berklar. Manni var við nám í Belgíu þegar hann lést en hann var aðeins 23 ára að aldri.

Nonni í sjónvarpi

Í kringum jólin árið 1989 voru sýndir í Ríkissjónvarpinu sex klukkustundar langir sjónvarpsþættir um Nonna og Manna. Leikstjóri var Ágúst Guðmundsson. Þættirnir voru sex talsins og gerðir fyrir þýsku sjónvarpsstöðina ZDF. Þættirnir byggðu á samnefndri bók eftir Nonna frá árinu 1914.

Aðalhlutverk í þáttunum lék Garðar Thor Cortes Nonna en Einar Örn Einarsson Manna. Garðar Thor hefur getið sér gott orð sem óperusöngvari en Einar Örn er flugþjónn og leikið auk þess að talsetja vinsælt barnaefni.

Safnið um Nonna

Safnið um Jón Sveinsson í Nonnahúsi geymir marga muni tengda rithöfundinum og prestinum. Þar eru meðal annars Nonnabækur á fjölmörgum tungumálum, svo sem á esperanto og japönsku.

Viljið þið vita meira um Nonnahús?

Í Stundinni okkar í Ríkissjónvarpinu var fjallað um húsið árið 2003. Kíkið á Stundina okkar. Þátturinn, sem er afar fróðlegur, er hluti af KrakkaRÚV.

Bankið upp á í Nonnahúsi á Akureyri. Það er góð hugmynd að skoða bernskuheimili Nonna.

Hvenær er opið og hvað kostar inn?

Safnið var  eigu Zontaklúbbs Akureyrar og klúbburinn rak safnið frá árunum 1957 -2007 en þá fékk Akureyrarbær það að gjöf. Minjasafnið á Akureyri rekur nú safnið.

Safnið er opið alla daga frá 10:00 – 17:00 frá 1. júní til 1. september.Hægt er að opna Nonnahús utan hefðbundins opnunartíma sé þess óskað.

Aðgangseyrir er 1.200 krónur en frítt er fyrir börn og unglinga, það er 17 ára og yngri.

Hægt er að kaupa dagskort á Minjasöfnin á Akureyrir fyrir 2.000 krónur. Kortið gildir einn dag í söfnin á vegum Minjasafnsins á Akureyri. Þau eru Nonnahús, Sigurhæðir, Davíðshús, Gamla bæinn Laufás og Minjasafnið sjálft.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd