Edda samdi bók um stafrófið í blómunum

Edda með ungum vinum í útgáfuhófi bókarinnar þegar hún kom út á sumardaginn fyrsta 2016.

„Fyrir mér er móðurmálið okkar mikilvægt – að hvetja unga sem aldna til að nota það rétt og að vera stolt yfir að tala mál sem hefur lítið breyzt í mörg hundruð ár. Tungumálið okkar ber líka bókstafi sem önnur tungumál hafa ekki,“ segir grafíski hönnuðurinn Edda Valborg Sigurðardóttir.

Það er ekki frá því að Edda sé svokölluð altmúligkona. Hún hefur samið og gefið út bókina Stafrófið í íslenskum blómum. Þetta er ljósmyndabók fyrir börn á öllum aldri, alveg frá 1-100 ára. Edda tekur sjálf ljósmyndirnar í bókinni og gefur út.

Þetta er fyrsta bók Eddu. En samt ekki. Þetta er fyrsta bókin sem hún semur sjálf og gefur út. Edda er nefnilega langt í frá nýgræðingur á sviði bókaútgáfu. Hún hefur mikla reynslu að baki við hönnun bóka annarra. Edda var lengi yfirhönnuður bókaútgáfunnar Houghton Mifflin Publishing í Boston í Bandaríkjunum og síðar framkvæmdastjóri hönnunarsviðs bandaríska hönnunar- og útgáfufyrirtækisins Mazer Creative Services.

Edda starfrækir nú eigin hönnunarstofu sem heitir Port hönnun.
13076605_996883993681688_3143182234686785935_n

Markmið bókarinnar er að sýna börnum á öllum aldri ljósmyndir af íslenskum blómum í náttúrulegu umhverfi svo þau geti þekkt blómin aftur úti í náttúrunni.

Á hverri opnu er ljósmynd af íslensku blómi sem á við þann bókstaf í stafrófinu sem stendur efst í horni blaðsíðunnar. Þar er einnig stuttur texti; vísubrot eða þula þar sem viðkomandi blóm kemur við sögu, fróðleikur um hvar blómið er helst að finna og hvenær það blómstrar. Þegar grannt er skoðað má svo finna litla blómálfa sem fela sig inni á milli blómanna.

fifa_blomastafrof_20br_300dpi

En hvers vegna íslenska stafrófið?

„Mig langaði að setja mér ákveðnar skorður eða mörk til að vinna inn í. Sem grafískur hönnuður er oft meiri ögrun í að vinna inn í fyrirfram ákveðið format þar sem ríkja einhverjar reglur en síðan frelsi innan þessa marka sem maður setur sér. Mér þótti til dæmis skemmtilega erfitt að finna blómategundir þar sem ég mátti bara nota eina tegund blóms hvers nafn byrjaði á S-i eða F-i. Ég notaði því íslenska stafrófið sem ramma utan um verkið“, segir Edda, sem lítur á sig sem áhugaljósmyndara þrátt fyrir að hafa tekið sjálf allar myndirnar í bókinni. Flestar þeirra tók Edda á ferðum sínum um Ísland í fyrrasumar.

„Frá unga aldri hef ég haft áhuga á öllu sem sjónrænt er og get heillast af því smáa í umhverfinu og líka hinu stóra. Birta og skuggar, form og litir sem ég sé í kringum mig gefur mér mismunandi tilfinningar, stundum gleði og stundum eitthvað sem mér þykir miður. Veröldin er uppfull af áhugaverðum sjónrænum köflum sem gaman er að raða saman og búa til heild. Það er skemmtilegt að sjá mismunandi sjónarhorn á sama hlut, skoða hvernig ljósið eða skugginn getur breytt því sem horft er á. Á þann veg er hægt að skapa leið til að sýna fyrirmyndina í nýju og kannski óvenjulegu samhengi. Ljósmyndavélin er gott tæki til að horfa á heiminn í kringum sig.“

Hvernig er að gefa sjálf út?

Eitt langar okkur til að vita að lokum. Þar sem Edda hefur lengi unnið við bókaútgáfu og hönnun erlendis liggur auðvitað beinast við að spyrja hvernig það er að gefa út bók á Íslandi í fyrsta sinn – og það sjálf.

„Þó ég hafi unnið í áratugi við bókahönnun í stóru forlagi erlendis hef ég ekki persónulega reynslu af útgáfu erlendis. Reyndar get ég með sanni sagt að ég hef enga reynslu af útgáfu fyrr en nú um þessar mundir þegar ég ákvað að leita ekki til íslenskra útgáfufyrirtækja heldur gefa sjálf út bókina Stafrófið í íslenskum blómum. En þetta hefur verið mikil og skemmtileg reynsla og áhugaverð og hefur leitt mig á fund margra sem hafa verið mér mjög hliðhollir og vinsamlegir. Til dæmis hafði ég samband við hvern einasta leyfishafa þeirra ljóða sem birtast í bókinni og átti afar skemmtileg samskipti við allt þetta fólk, úti um allt land. Svona ferli væri útilokað í stóru og mannmörgu þjóðfélagi,“ segir Edda að lokum.

EddaV_Sigurdard_blomastafrof -2

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd