Forsetinn dregur í lestrarátaki Ævars vísindamanns

Þriðja lestrarátaki Ævars vísindamanns lýkur í dag, miðvikudaginn 1. mars. Það hefur staðið yfir síðan á Nýársdag eða í þrjá mánuði.

Í átakinu máttu allir krakkar í 1. – 7. bekk grunnskólum landsins lesa hvaða bók sem er, á hvaða tungumáli sem er, hlusta á hljóðbækur eða láta lesa fyrir sig. Fyrir hverjar þrjár bækur gátu lestrarhestarnir prentað út lestrarmiða, fyllt þá út og skilað á næsta skólabókasafn. Bókasöfnin komu þeim svo til skila.

Nú þegar lestrarátakinu lýkur lestrarátakinu lýkur hafa grunnskólar landsins tæpa viku til að koma lestrarmiðunum til skila. Dregið verður í átakinu 8. mars næstkomandi.

Ævar hefur sjálfur dregið út vinningshafa í átakinu síðastliðin tvö ár. Nú dregur hann sig í hlé og mun enginn annar en Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, draga út nöfn fimm vinningshafa úr lestrarátakspottinum. Vinningshafarnir fimm verða svo gerðir að persónum í nýjustu bók Ævars Þórs Benediktssonar. Bókin kemur út í maí og mun heita Gestir utan úr geimnum.

 

Hvað lásu krakkarnir margar bækur?

Enn liggur auðvitað ekki fyrir hvað börnin lásu margar bækur. Þegar lestrarátakinu lauk í fyrra höfðu þau lesið 54 þúsund bækur.

„Þetta er auðvitað framar björtustu vonum,“ sagði Ævar Þór þá í viðtali við Úllendúllen.

Stærstur hluti grunnskóla landsins sendi inn lestrarmiða í lestrarátaki Ævars. Það gerðu líka nemendur við Gladsaxeskóla í Danmörku en þar stunda íslenskir krakkar nám. Verðlaunin voru þau sömu og í ár, að verða persónur í bók Ævars. Bókin með krökkunum heitir Bernskubrek Ævars vísindamanns 2:  Vélmennaárásin.

Enn meiri upplýsingar: Vefsíða Ævars vísindamanns.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd