Dorg og veiði í góða veðrinu

Það er gaman að veiða fisk í höfninni. Jafnvel þótt aflinn reynist gamalt stígvél.

Það er gaman að veiða, hvort heldur er standa úti við vatn eða á bryggjusporði í góðu veðri.

Engu skiptir hvort maður er 3 ára eða 93 ára. Þótt dorgveiði geti reynt á þolinmæðina þá er alltaf jafn skemmtilegt að finna kippinn þegar fiskur bítur á öngul.

Dorgað við bryggju

Vinsælt er að dorga á tveimur stöðum á bryggjunum í Reykjavík. Staðirnir eru brúarsporðurinn á austurbakka hafnarinnar á milli Kolaportsins og Hörpu og úti á vesturhöfninni á Grandagarði hjá Kaffivagninum.

En hvað veiðist? Þið getið átt von á að hjá ykkur bíti þorskur, koli, ufsi, makríll, marhnútur og sjóbirtingur.

Það er tilvalið að fara niður að höfn að veiða. Og gætið að börnunum. Tólf ára og yngri þurfa að vera í fylgd með fullorðnum.

Veitt í vatni

En svo er líka gott að fara út úr bænum og veiða með fjölskyldu og vinum úti í guðsgrænni náttúrunni, fylgjast með öðrum veiða eða horfa bara á fugla og fjöll á meðan flotholt vaggar við vatnsborð.

Það er langt í frá mikilvægt að skipuleggja veiðiferð með löngum fyrirvara. Þvert á móti er vel hægt að henda dóti út í bíl, smyrja nokkrar samlokur og bruna út fyrir bæjarmörkin.

Ef ekið er út frá borginni er lítið mál að skjótast að Kleifarvatni og Þingvallavatni. Þetta eru tiltölulega stuttar leiðir og umhverfið fallegt.

Ef þið ætlið í veiðiferð er mikilvægt að hafa Veiðikortið með í för. Með Veiðikortið í hendi þarf ekki að eyða neinu í sérstakt veiðileyfi. Með kortinu fylgja helstu upplýsingar um vötn og aðgönguleiðir að þeim. Veiðikortshafar geta því komist örugglega á áfangastað til veiða, eða rennt við á ferðalögum til skammtímadvalar, tjaldað eða borðað nestið sitt í ljúfum nið fagurra vatnasvæða. Ferðalag um landið með alla fjölskylduna þarf heldur ekki að vera svo dýrt, þegar hægt er að spara gistikostnað með þessum hætti.

Veiðiferð í vötn er tilvalin samvera fjölskyldunnar og skemmtilegt sport.   

Heimasíða Veiðikortsins:

Á heimasíðu Veiðikortsins er hægt að skoða texta um einstök vatnasvæði, kaupa Veiðikortið, skoða upplýsingar á ensku, lesa skoðanaskipti og skoða nýjustu fréttir af veiðiskapnum.  Myndir eru vel þegnar af vatnasvæðum Veiðikortsins og má senda þær á netfangið veidikortid@veidikortid.is

Allar upplýsingar eru á vefsíðu Veiðikortsins.

Deilið þessu:

2 Responses to Dorg og veiði í góða veðrinu

  1. Pingback: Debóra Dögg

    • Pingback: ullendullen.is

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd