„Þetta verður notaleg fjölskylduhátíð með töframanni, náttúrujóga, tónlistarsmiðju, gönguferðum. Ég sé um alla skipulagningu og undirbúning hátíðarinnar og er auðvitað með fullt af frábæru fólki í kringum mig til aðstoðar, eins og þau sem sjá um Sauðfjársetrið og marga fleiri,“ segir Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðingur og yfirnáttúrubarn í Náttúrubarnaskólanum á Ströndum.
Dagrún og Náttúrubarnaskólinn halda Náttúrubarnahátíð á Ströndum helgina 28.-30. júlí. Þar gefst gestum tækifæri til að finna og rækta náttúrubarnið í sér.
Dagrún segir erfitt að geta sér til um hvað margir komi. Mikilvægast sé að þetta verði skemmtileg útihátíð um náttúruna.
Mikilvægt að börn læri um náttúruna
Náttúrubarnaskólinn hefur verið starfrækur síðan sumarið 2015 og heldur námskeið fyrir náttúrubörn á öllum aldri. Hann er staðsettur á Sauðfjársetri á Ströndum, rétt sunnan við Hólmavík.
Dagrún segir mikilvægt að öll börn læri að sjá það sem er í kringum þau. Þess vegna hafi hún ákveðið að hafa Náttúrubarnahátíð ásamt því að reka Náttúrubarnaskólann eins og áður í sumar.

Krakkarnir í Náttúrubarnaskólanum finna alltaf eitthvað skemmtilegt við ströndina við Orustutanga. Myndin er fengin af Facebook-síðu Náttúrubarnaskólans.
„Náttúrubarnahátíðin er hátíð fyrir náttúrubörn á öllum aldri. Hún snýst um að sjá hvað allt í kringum okkur er í raun og veru merkilegt, hvernig hægt er að nýta náttúruna á skapandi og skemmtilegan hátt og hvernig má vernda hana um leið. Við vonumst líka til þess að hún auki áhuga á náttúrunni sem er svo mikilvæg.“
Hellingur af tónlist og fjöri
Á hátíðinni verða allskonar skemmtilegar smiðjur, útivist, leikir, sögustundir, tónlist, myndlist, fróðleikur og fjör fyrir alla fjölskylduna.
Á hátíðinni kom fram Svavar Knútur og hljómsveitin Ylja, boðið verður upp á skemmtilegar smiðjur í útieldun og náttúrutónlist, hægt verður að fræðast um jurtalitun og hvernig er unnið úr rekavið. Galdramaðurinn Ingó Geirdal verður með töfrasýningu, auk þess sem það verður stórskemmtilegt Náttúrubarnakviss á föstudeginum og þjóðsögur og ævintýri í sagnahúsi á laugardagskvöldinu. Þá verður hægt að skella sér á hestbak, í náttúrujóga, gönguferðir og sjósund!
Aðgangsmiðinn á hátíðina alla kostar 3.000 krónur. En enginn þarf að vippa svo miklu úr veskinu því hægt er að kaupa miða á staka viðburði og prófa eitthvað skemmtilegt með börnunum.
Ítarlegri upplýsingar er að finna á viðburðasíðu Náttúrbarnahátíðarinnar á Ströndum.
Þú getur lesið meira um Náttúrubarnaskólann á Úllendúllen.