Dagrún Ósk: Brot af því besta í Náttúrubarnaskólanum

Hluti barna á öllum aldri sem sest hefur á skólabekk í Náttúrubarnaskólanum. / MYND Náttúrubarnaskólinn

Hluti barna á öllum aldri sem sest hefur á skólabekk í Náttúrubarnaskólanum. / MYND Náttúrubarnaskólinn

„Þemað nú verður brot af því besta. Þá ætlum við að endurtaka allt það sem hefur heppnast best og verið skemmtilegast: Gera jurtaseyði, fara út í gönguferð, fá gestakennara, senda flöskuskeyti, búa til hálsmen úr rekavið, gera þara listaverk, búa til fuglahræðu, þurrka söl og margt fleira,“ segir Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðinemi og yfirnáttúrubarn í Náttúrubarnaskólanum sem starfræktur er í samtarfi við Sauðfjársetrið við Hólmavík á Ströndum.

 

Síðasta helgin

Síðustu forvöð er fyrir börn frá fimm ára aldri að níræðu að skella sér á námskeið í Náttúrubarnaskólanum hjá Dagrúnu. Síðasta helgarnámskeiðið er dagana 22.-23. ágúst næstkomandi.

Dagrún hefur haldið námskeið í skólanum alla fimmtudaga í sumar, stöku helgar og kvöld, fyrir börn frá fimm ára aldri, foreldra og afa og ömmur sem bæði búa á Vestfjörðum og eiga þar leið um. Hún hefur farið niður í fjöru við Orustutanga, leitað að ætum jurtum, tínt söl og blóðberg inn í landi, frætt nemendur um rekavið, fugla, galdra og hvaðeina sem fyrirfinnst á Ströndum. Aðsóknin hefur verið mjög góð og sumir krakkar og skyldmenni þeirra mætt oft á námskeið enda ekkert þeirra eins.

Hún segir sumt aðeins hægt að gera á ákveðnum tímabilum og nefnir sérstaklega ferðir sem farnar voru til að skoða æðarkollurnar og teisturnar. Nú eru þær allar farnar.

 

Kvöldvaka í tilefni skólaslita

Í tilefni af því að þetta verður síðasta helgarnámskeiðið verður boðið upp á heljarinnar skemmtun í Náttúrubarnaskólanum.

„Þessa helgi ætlum við líka að hafa kvöldvöku á laugardagskvöldinu klukkan átta þar sem við ætlum að poppa yfir opnum eldi, spila á gítar, syngja, fara í leiki og segja draugasögur,“ segir Dagrún Ósk yfirnáttúrubarn.

Helgarnámskeiðið kostar 5000 kr. og þá er kvöldvakan inn í gjaldinu. Hægt er að mæta aðeins á kvöldvökuna. Hún kostar aðeins 1.500 krónur.

Brunið vestur á Strandir og skellið ykkur á náttúrunámskeið hjá Dagrúnu áður en grunnskólinn byrjar!

 

[ad name=“POSTS“]

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd