
„Ég hvet náttúrubörn á öllum aldri til að koma og kynnast náttúrunni, leika sér saman og skapa skemmtilegar minningar,“ segir Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðingur og Náttúrubarnaskólastjóri á Ströndum. Skólinn stendur fyrir Náttúrubarnahátíð á Ströndum með pompi og prakt helgina 9.-11. júlí á Sauðfjársetrinu í Sævangi, rétt sunnan við Hólmavík.
Náttúrubarnahátíðin er fjölskylduhátíð þar sem gestir, börn og fullorðnir fá kjörið tækifæri til að finna eða rækta sitt innra náttúrubarn á fjölbreyttum viðburðum sem einkennast af útivist, fróðleik og skemmtun.
Dagskránna alla má sjá hér að neðan.
Börn og ólíkar hliðar náttúrunnar
Það er Náttúrubarnaskólinn sem stendur fyrir hátíðinni og sér Dagrún Ósk um hann. Náttúrubarnaskólinn stendur líka fyrir fjölbreyttum námskeiðum fyrir börn yfir sumartímann sem miðar að því að fræða börn um ólíkar hliðar náttúrunnar.
„Markmið Náttúrubarnaskólans er að líta sér nær og sjá hvað allt í kringum okkur er merkileg, að leita ekki langt yfir skammt. Þegar við þekkjum náttúruna hugsum við líka betur um hana,“ segir hún.
„Hátíðin hefst á föstudegi og fer að mestu fram utandyra, svo við hefjum hana á því að framkvæma veðurgaldur, til að tryggja gott veður um helgina,“ segir Dagrún. „Skipulagningin gengur mjög vel, við erum með glæsilega dagskrá, fjölbreytt og skemmtileg atriði, tónlist, spennandi smiðjur, gönguferðir og útivist. Ég hlakka mjög til. Sævangur er frábært svæði fyrir hátíð af þessu tagi, nálægt fjörunni, þar er fjölbreytt fuglalíf og plöntulífríki,“ bætir Dagrún við.

Fyrir þau sem mæta snemma verður sirkushópurinn Hringleikur á Hólmavík í vikunni með námskeið fyrir krakka og svo með sýninguna Allra veðra von í Sævangi á fimmtudeginum.
Hellingur af uppákomum
Á hátíðinni um helgina verða meðal annars á dagskrá kvöldskemmtun með Gunna og Felix, tónleikar með Sauðatónum, Stjörnu-Sævar, Benedikt búálfur og Dídí koma í heimsókn og Einar Aron töframaður verður með magnaða töfrasýningu. Það verða spennandi smiðjur með Arfistanum, Þykjó og Eldraunum, hægt að fara á hestbak, taka þátt í núvitundarævintýri með Kyrrðarkrafti, náttúrubarnajóga með Hvatastöðinni, útileikjum, gönguferðum, fjölskylduplokki, spurningaleik, hlusta á drauga- og tröllasögur, skjóta af boga og margt fleira.
Frítt er á öll atriði hátíðarinnar en hún er styrkt af Uppbyggingasjóði Vestfjarða, Sterkum Ströndum og Orkubúi Vestfjarða. Hægt er að kaupa súpu, grillaðar pylsur, samlokur og ís í Sævangi alla helgina. Gestum hátíðarinnar býðst að tjalda frítt á Kirkjubóli sem er beint á móti Sævangi en þar er þó ekki eiginlegt tjaldsvæði (ekkert rafmagn). Á Hólmavík er svo frábært tjaldsvæði og ýmsir gististaðir í grenndinni.
Hægt er að kynna sér hátíðina á Facebook síðu Náttúrubarnaskólans, senda póst á natturubarnaskoli@gmail.com eða hringja í Dagrúnu í síma 661-2213.
Dagskrána í heild sinni má nálgast á: https://www.facebook.com/events/782069226047041
Dagskráin
Föstudagur 9. júlí
17:00 Fjölskyldu gönguferð í fjörunni
18:30 Setning hátíðarinnar og veðurgaldur
18:30 Hægt að kaupa súpu og grillaðar pylsur (grænmetis og ekki) í Sævangi
19:00 Frábærir fjölskyldutónleikar með Sauðatónum
20:00 Náttúrubarnakviss: Spennandi spurningaleikur fyrir alla fjölskyldunna
Laugardagur 10. júlí
12:00 Núvitundarævintýri með Kyrrðarkrafti
13:00 Mögnuð töfrasýning með Einari Aroni
13:30 Náttúrufjör: Bogfimi, Strandahestar, eldsmiðja, opið hús í tilraunastofunni, náttúrubingó, grillaðar pylsur og fleira
15:00 Furðufuglasmiðja með Þykjó
16:30 Fuglafjör: Trítlað um teistuvarpið
17:30 Klassískir útileikir í Sævangi
18:00 Hægt að kaupa grillaðar pylsur og súpu (grænmetis og ekki)
20:00 Kvöldskemmtun með Gunna og Felix
21:30 Drauga- og tröllasögur í Sagnahúsinu
Sunnudagur 11. júlí
11:00 Náttúrubarnajóga
12:00 Stjörnu Sævar og undur jarðar
13:00 Benedikt búálfur og Dídí mannabarn
13:30 Náttúrusmiðja með Arfistanum
15:30 Fjölskylduplokk