„Mér fannst í æsku alltaf gaman að búa eitthvað til, fara niður í fjöru og safna skemmtilegu dóti,“ segir Dagrún Ósk Jónsdóttir, kennari og stofnandi Náttúrubarnaskólans á Ströndum.
Skólinn hefur haldið námskeið alla fimmtudaga í sumar, stöku helgar og kvöld, fyrir börn frá fimm ára aldri, foreldra og afa og ömmur sem bæði búa á Vestfjörðum og eiga þar leið um. Farið niður í fjöru við Orustutanga, leitað að ætum jurtum, söl og blóðbergi inn í landi, nemendur fræddir um rekavið, fugla, galdra og hvaðeina sem fyrirfinnst á Ströndum.
Mikið af afþreyingu
Dagrún er uppalin rétt utan við Hólmavík og hefur alla tíð safnað að sér fróðleik um umhverfi sitt. Það leiddi hana í þjóðfræði í Háskóla Íslands sem hún nýtir við kennsluna á Ströndum.
En með hverju mælir Dagrún fyrir börn, foreldra og afa og ömmur sem koma vestur?
„Það er fullt að gera á Hólmavík. Nóg af afþreyingu fyrir fjölskyldur. Þær geta farið á Sauðfjársetrið, Galdrasýninguna, kíkt á Drangsnes, farið í sund, skoðað Arnarsetrið, fara í hestaferð með Strandahestum og margt fleira.,“ segir Dagrún.