Dagrún: Börnin gera tilraunir með pöddur og slím á Ströndum

Það er engu líkara en að börnin séu í álögum, þau eru svo róleg þegar þau læra um galdra í Náttúrubarnaskólanum. MYND / Náttúrubarnaskólinn

„Krakkarnir kenna mér helling, þau eru líka svo opin og hress. Ef þau fá skemmtilegar hugmyndir þá reynum við að framkvæma þær,“ segir Dagrún Ósk Jónsdóttir, yfirnáttúrubarn í Náttúrubarnaskólanum sem starfræktur er í samtarfi við Sauðfjársetrið við Hólmavík á Ströndum.

Náttúrubarnaskólinn er með námskeið fyrir börn nær alla daga vikunnar. Dagrún stendur fyrir ögnum, jurtanámskeiðum fyrir fullorðna og heldur úti fimmtudagsfjöri fyrir börn með allskonar þemu. Skólinn er líka með stöku helgarnámskeið fyrir fjölskylduna þar sem náttúran er skoðuð í krók og kring.

Börnin læra um galdur

Börnin eru vinir í Náttúrubarnaskólanum. MYND / Náttúrubarnaskólinn

Dæmi um þema á fimmtudagsfjöri er fugla-, jurta- og galdraþema. Þau eru frá kl. 13:00-17:00 alla fimmtudaga. Svo eru helgarnámskeið helgarnar 23.-24. júlí og 6.-7. ágúst sem eru frá kl. 13:00-17:00 báða dagana og er þar boðið upp á brot af því besta.

Fimmtudagsnámskeiðin kosta 3000 kr. og helgarnámskeiðin 6000 kr. og eru alltaf innifaldar djús og kökur.

Dagrún segir börnin á námskeiðunum í Náttúrubarnaskólanum hafa verið frá 4-14 ára aldri.

„Það er mjög skemmtilegt að hafa svona breytt aldursbil og það virkar líka vel,“ segir hún.

Á meðal þess sem krakkar í skólanum gera er að útbúa jurtaseyði, fara í gönguferð í náttúrunn, þurrka söl, þau leita að ætum jurtum, tínt blóðberg inn í landi og kynnt sér galdra, sem einkenna Hólmavík.

Hvað finnst Dagrúnu skemmtilegt?

Strandamaðurinn og yfirnáttúrubarnið Dagrún Ósk Jónsdóttir. / MYND Náttúrubarnaskólinn

Strandamaðurinn og yfirnáttúrubarnið Dagrún Ósk Jónsdóttir. / MYND Náttúrubarnaskólinn

„Mér finnst auðvitað gaman að kenna krökkunum eitthvað sem þau vissu ekki áður og finnst áhugavert og að þau fái tækifæri til að kynnast fleiri krökkum. Mér finnst líka skemmtilegt þegar ungarnir eru að koma úr eggjunum og við förum og skoðum þá því þeir eru svo ótrúlega krúttlegir. Það er mjög fjölbreytt fuglalíf við Náttúrubarnaskólann og margir fuglanna vanir umgangi. Teisturnar verpa til dæmis í manngerða kassa sem er hægt að opna og kíkja á bæði fuglinn og ungana sem halda til í hreiðrinu í allt upp í 30 daga. Svo finnst mér gaman að gera jurtaseyði með krökkunum og segja þeim draugasögur! Það er svo margt hægt að gera skemmtilegt úti í náttúrunni,“ segir Dagrún.

 

Hvernig á að skrá sig?

Hressir krakkar á námskeiði Náttúrubarnaskólan. MYND / Náttúrubarnaskólinn

Ekki er nauðsynlegt að skrá sig í Náttúrubarnaskólann á Ströndum með löngum fyrirvara og því henta námskeið sem eru á leið til Hólmavíkur eða ætla að stoppa þar í nokkra daga. Alveg er nóg að skrá sig og börnin daginn fyrir námskeið.

Ítarlegri upplýsingar um skráningu má fá í síma 661-2213 (Dagrún Ósk) eða með því að senda stuttan tölvupóst á netfangið natturubarnaskoli@gmail.com. Líka má fara á Facebook-síðu skólans og senda skilaboð á síðunni.

Hvað er framundan?

Forvitninni er svalað í skólanum. MYND / Náttúrubarnaskólinn

„Við erum með spurningakeppni fyrir alla fjölskylduna á Sauðfjársetrinu þriðjudaginn 26. júlí. Í sumar  verða líka kvöldvökur og sagnaskemmtanir þar sem sagðar eru drauga og álfasögur í sagnahúsinu niðri í tanga (þar sem eini plastdýragarður Íslands er einnig til húsa)! Þannig það verður nóg um að vera“, segir Dagrún og bætir við að til standi að opna tilraunastofu í kjallaranum þar sem ætlunin er að gera allskonar skemmtilegar tilraunir með vatn, búa til slím, skoða pöddur og jurtir í smásjám og fleira.

Þetta getur ekki verið neitt annað en skemmtilegt.

Drífið ykkur vestur til Dagrúnar!

ÚLLENDÚLLEN FJALLAÐI UM NÁTTÚRUBARNASKÓLANN Í FYRRA. HVERNIG VAR ÞÁ Í SKÓLANUM?

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd