Brynhildur í Ferðafélagi barnanna: Aflýsum ekki ferðum nema í fárviðri

Róbert Marshall lýsir einhverju svakalegu í ferð Ferðafélags barnanna í Krýsuvík haustið 2016.

„Við ætlum út að leika, skoða hóla, klifra, sulla og renna okkur,“ segir Brynhildur Ólafsdóttir sem heldur utan um verkefnið Ferðafélag barnanna. Ferðafélagið starfar innan Ferðafélags Íslands.

Ferðafélag barnanna hefur skipulagt könnunarleiðangur fyrir fjölskylduna að Rauðhólum við Elliðavatn þriðjudaginn 14. mars næstkomandi.

Þar fá fjölskyldur tækifæri til að hrista af sér vetrarslenið, skoða alls konar leynistaði, margbrotna litadýrð, skrítna klettadranga og frosnar tjarnir. Ef enn verður snjór á jörð verður í boði að renna sér á rassinum eða á þotum niður hólana. En líka verður farið í leiki og þrautakóng.

Ekki skiptir miklu máli hvernig viðrar til ferðalaga á vegum Ferðafélags barnanna því Brynhildur og maður hennar Róbert Marshall fara með fjölskyldufólk út um alla koppagrundir hvernig sem viðrar. Mikið þarf til að fella niður ferðir.

„Við aflýsum ekki ferðum nema það sé fárviðri og beinlínis bannað að fara út,“ segir Brynhildur.

 

Hvað eru þessir Rauðhólar?

Rauðhólar eru miklir ævintýrastaðir í nágrenni Reykjavíkur. Fram kemur á Vísindavef Háskóla Íslands að gervigígar eins og Rauðhólar hafi hvergi fundist nema á Íslandi og á reikistjörnunni Mars.

Hólarnir eru í raun gervigígar sem talið er að hafi myndast fyrir um 4.700 árum þegar Elliðaárhraun rann yfir votlendi og út í vatn sem var á svæðinu. Þegar hraunið kom út í vatnið hvellsauð í vatninu og mynduðu gufugos gjallgíga á yfirborði hraunsins. Gígarnir voru upphaflega 80 talsins. Efnið úr þau hefur verið notað í húsagrunna og ýmislegt fleira eins og undirlag á Reykjavíkurflugvelli og hefur þeim því fækkað mikið. Rauðhólar voru friðlýstir árið 1961 og hætti þá efnistakan.

Hvaða ferðafélag er þetta?

Ferðalangar í Rauðhólaferð Ferðafélagsins árið 2015. MYND / Ferðafélag barnanna

Ferðafélag barnanna var stofnað árið 2009 á vegum Ferðafélags Íslands og að fyrirmynd norska ferðafélagsins DNT. Markmið Ferðafélags barnanna er að hvetja börn og foreldra til útiveru og samveru í náttúru landsins og fá þannig öll börn til að upplifa sanna gleði í náttúrunni og upplifa leyndardóma umhverfisins.

Allar ferðir eru farnar á forsendum barna og sniðnar að þörfum þeirra.

Brynhildur og Róbert segja ferðalöngum sögu á góðri stundu.

Þau Brynhildur og Róbert fara í fjölmargar ferðir á hverju ári, með sérfræðingum á vegum Háskóla Íslands, í stjörnuskoðun með Sævar, í kræklingaferð í Hvalfjörð, sveppatínslu í Heiðmörk og margt fleira. Í fyrrahaust var ferðinni heitið í Seltún í Krýsuvík. Ekki viðraði neitt sérstaklega vel. En það hindrar engan. Þvert á móti var ferðin frábær fyrir fólk á öllum aldri.

Kynnið ykkur vefsíðu Ferðafélags barnanna!

Þeir sem ætla að drífa sig í ævintýraferð að Rauðhólum eiga að mæta klukkan 17:00 á bílum sínum á bílastæðið við Rauðhóla. Mikilvægt er að allir séu vel klæddir, með nesti og snjóþotur, rassaþotur eða bara svarta plastpoka til að renna sér á. Gert er ráð fyrir að ferðin með öllu taki um tvær klukkustundir.

Þátttaka ókeypis og allir velkomnir. Ekkert að panta, bara mæta!

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd