
Brian Pilkington heillaði gesti á bókamessu bókaútgefenda í Ráðhúsi Reykjavíkur í nóvember þegar hann sýndi hvernig hann vinnur myndir sínar. Flöturinn er stór og myndirnar flottar.
Það er gaman að teikna og mála og láta eitthvað verða að veruleika. Allir geta málað. Æfingin skapar meistarann.
Þekkir þú myndir Brians Pilkingtons? Ef þú hefur flett bók síðastliðin 30 ár eða svo þá hefur þú séð allavega eina mynd.
Teiknar tröll
Brian Pilkington er fæddur í Liverpool í Bretlandi árið 1950. Hann kom til Íslands í heimsókn árið 1976 og líkaði svo vel að hann ákvað að setjast hér að. Fyrsta bókin sem hann myndskreytti var Ástarsaga úr fjöllunum eftir Guðrúnu Helgadóttur.
Á þessum að verða 40 árum sem eru að líða síðan Brian flutti til Íslands hefur hann myndskreytt fjölda bóka fyrir íslenskan og erlendan markað síðan á níunda áratug síðustu aldar. Pilkington er þekktastur fyrir myndir sínar í bókum um íslensku jólasveinana, tröllin, dýraríki Íslands og margar fleiri. Þar á meðal eru myndir við söguna Ástarsaga úr fjöllunum eftir Guðrúnu Helgadóttur og myndir í bók Ingibjargar Sigurðardóttur, Blómin á þakinu.
Brian Pilkington hefur skrifað bækur um íslenska þjóðtrú sem hafa komið út á íslensku og ensku og hlotið fjölda verðlauna fyrir. Meðal annars viðurkenningau Ferðamálaráðs fog Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur.
Djúpvitur tröll
Árið 2011 sendi hann frá sér tröllabók með tröllavísdómi. Brian sagði í samtali við Morgunblaðið í tilefni af útgáfu bókarinnar að hann sé heillaður af íslenskum tröllum. Hann hafi rannsakað þau í áraraðir og teiknað af þeim ótal myndir. Hann segir þau djúpvitur og friðsöm og þótt fáir sjái þau þá sé ekki þar með sagt að þau séu ekki til.
Ef þú vilt fræðast frekar um Brian Pilkington þá hefur verið skrifuð ritgerð um hann og myndskreytingar barnabóka.
Það er gaman að lesa bækur, sérstaklega með myndum Brian Pilkington.
Lestu með börnunum þínum.