Börnin verða fyrirmynd þeirra fullorðnu

Skjáskot úr Landanum í RÚV af æfingu fullorðna fólksins.

Skjáskot úr Landanum á RÚV af æfingu fullorðna fólksins.

Stundum snúast hlutverkin við og börnin verða fyrirmyndir foreldranna. Ungmennafélag Akureyrar hefur boðið upp á æfingar í frjálsum íþróttum fyrir fullorðna. Aldurstakmarkið er 30 ár og þarf fullorðna fólkið oft að taka á því.

Fjallað var um æfingahópinn í sjónvarpsþættinum Landanum sem Ríkissjónvarpið sýndi sunnudaginn 15. nóvember. Þar sagði Unnar Vilhjálmsson, þjálfari hópsins, að ákveðið hafi verið að prófa þetta í sumar þegar krakkarnir fóru í æfingaferð til Gautaborgar í Svíþjóð. Foreldrarnir fóru með og komust að því í ferðinni að þau þyrftu að hreyfa sig sjálf. Fæstir í hópnum höfðu æft frjálsar íþróttir áður en þau byrjuðu á því í sumar. Einhverjir hafi þó kynnst íþróttinni áður. Oftast hafi það þó verið í gegnum börnin.

Ætla að halda jólamót

Fram kom í þættinum að þátttakendum finnist mun skemmtilegra að æfa frjálsar íþróttir í stað þess að horfa á æfingar barnanna. Kosturinn við frjálsar sé sá að þar sé hægt að velja úr mörgum íþróttagreinum.

Foreldrarnir ætla að halda mót fyrir næstu jól. Þar verður hlutverkunum áfram snúið við. Í stað þess að foreldrar sjái um nestið á íþróttamótum barna munu börnin gera það og styðja væntanlega sína foreldra til sigurs.

Þetta eru frábærar fyrirmyndir.

Viltu verða fyrirmynd? Horfðu á innslagið í Landanum og drífðu þig svo í íþróttir með börnunum.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd