Börnin mega spyrja eins og þau vilja á sýningu Ragnars Kjartanssonar

Markús Þór Andrésson segir listasýningar frábæran stað til að sjá að sjá að hægt er að gera allt mögulegt.

„Börnin mín hafa sérstaklega gaman af því að fara á sýninguna hans Ragnars til að sjá menn í náttfötunum spila á gítar og syngja,“ segir Markús Þór Andrésson, sem sér um skipulagningu leiðsagna hjá Listasafni Reykjavíkur.

Barnaleiðsögn verður um sýningu Ragnars Kjartanssonar, Guð hvað mér líður illa í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi laugardaginn 16. september. Barnaleiðssögnin er á milli klukkan 13:00 – 14:00.

Sýningin er fyrsta safnsýning Ragnars á heimavelli eftir sigurför um allar koppagrundir í útlöndum. Á sýningunni eru verk frá árinu 2004 til dagsins í dag; lifandi gjörningar, stórar myndbandsinnsetningar, ljósmyndir, höggmyndir, málverk og teikningar.

Aðgöngumiði á safnið gildir á barnaleiðsögnina.

Meira um sýninguna

Börn hafa áhuga á hlutum

En af hverju ætti list Ragnars að höfða sérstaklega til barna?

Markús svarar því:

„Listaverk Ragnars vekja yfirleitt forvitni fólks á öllum aldri, líka barna, því þar bregður fólk sér í hlutverk, þar er tónlist og allir mögulegir miðlar. Verkin eru líka spaugileg eða vekja furðu. Það er þess vegna sem okkur langar að bjóða upp á barnaleiðsögn, til að svara spurningum þeirra og segja þeim frá hvað Ragnar er að spá í með verkum sínum.“

Sjá börn sýningar eða list með öðrum hætti en fullorðnir? Ef já, hvernig?

„Börn og fullorðnir sjá sömu hlutina en það sem maður sér túlkar maður alltaf á eigin forsendum, þannig að börn skoða list út frá áhugasviðum sínum og þekkingu rétt eins og fullorðnir gera. Börn hafa gjarnan áhuga á því hvernig hlutir eru búnir til, til hvers og af hverju þeir eru svona en ekki hinsegin. Fullorðnir eru kannski meira að spá í hvaða merkingu listaverk hafa. Og svo er fullt sem börn og fullorðnir eiga sameiginlegt, að finnast eitthvað fallegt, ljótt, fyndið eða fráhrindandi. “

Fá börnin að gera eitthvað annað en fullorðnir í barnaleiðsögninni?

„Þau fá að spurja endalaust, fullorðnir fá bara eina spurning á mann.“

Hvað með þig sjálfa/n? Fórstu á listasýningar í æsku með foreldrum þínum eða ferðu með börnin þín á sýningar?

„Já, ég fór á sýningar sem krakki og hafði rosa gaman af því að skoða til dæmis málverk af því ég var svo áhugasamur um hvernig maður teiknar og málar til að búa til áhugaverða mynd.“

Ef já, hvað fannst þér skemmtilegt við listasýningar í æsku?

„Listsýningar eru svo frábær staður til að sjá að það er hægt að gera allt mögulegt, maður þarf ekki alltaf að gera eins og manni er sagt, stundum er best að fara alveg sína eigin leið og þá verður eitthvað flott til.“

 

Save

Save

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd