„Við ætlum að segja sögur og búa til galdraseyði á útigrilli sem við höfum búið til. Seyðið er gert úr jurtum sem nemendur tína sjálfir. Þar læra þeir, börn og fullorðnir, hvað má nota og hvað ekki,“ segir Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðinemi og yfirnáttúrubarnakennari við Náttúrubarnaskólann sem starfræktur er við Sauðfjársetrið við Hólmavík á Ströndum í sumar.
Útivera í náttúrunni
Einkunnarorð skólans útivera fyrir börn á öllum aldri. Nemendum skólans gefst kostur á að sjá, snerta og upplifa náttúruna. Námskeið í skólanum eru fyrir börn og fullorðna á hverjum fimmtudegi. Auk þess eru stöku helgarnámskeið og kvöldgöngur.
Dagrún segist að hugmyndin hafi verið lengi í mótun áður en ákveðið var að setja skólann á laggirnar í sumar. Aðsóknin hefur verið mjög góð og stefnt á að hafa hann áfram næsta sumar.
Segir þjóðsögur í gömlu húsi
Í Náttúrubarnaskólanum er hægt að föndra og mála, skoða seli, leita að hreiðrum, fara í alls konar leiki, læra að búa til fuglahræður, senda flöskuskeyti heimshorna á milli, kryfja fiska og margt fleira.
Námskeiðin eru þematengd. Á þeim námskeiðum sem búin eru var sjávar- og fjöruþema og fuglaþema. Þemað í dag er galdra- og þjóðtrú og verða sögur sagðar í gömlu hundahreinsunarhúsi sem Dagrún hefur innréttað sem sagnahús. Ekki er langt að sækja upplýsingar og galdraþekkingu enda er Galdrasafnið kyngimagnaða á Hólmavík.
Hópar sem eiga leið um Strandir og vilja kíkja við á Hólmavík geta pantað námskeið hjá Dagrúnu yfirnáttúrubarnakennara.
Nánari upplýsingar um skólann má finna á Facebook-síðu Náttúrubarnaskólans.