Akró Ísland: Börn eldri en fimm ára geta vel komið í tíma með foreldrum sínum

Akró Ísland býður upp á kynningartíma í akró laugardaginn 15. september fyrir bæði byrjendur og lengra komna og er fjölskyldan öll velkomin á milli klukkan 13:30 – 15:00. Þetta er fyrsta akródjamm haustsins.

Um tvo viðburði er að ræða, byrjendakennslu frá klukkan 13:00 – 15:00 og er aðgangseyrir á hann 2.o00 krónur. Opinn tími tekur við af honum klukkan 15:00 og kostar aðeins 1.000 krónur að skrá sig í hann.

Byrjendatíminn
 
og svo fyrir þá sem hafa komið áður

En hvað er þetta akró?

Við spurðumst auðvitað fyrir og Sigurbjörg hjá Akró Ísland svaraði spurningunum.

 

Læra að vinna með öðrum

„Það sem maður lærir í akró er að vinna með öðrum einstaklingum að sameiginlegu markmiði og hvernig er hægt að nota líkamann til þess að búa til stöður, flæði, hopp, form eða hvað sem er með því að beita sér á ákveðinn hátt. Akró er fyrst og fremst samvinna og traust fyrir utan að vera frábært skemmtun. Með akróiðkun styrkist miðja líkamans mikið, þ.e bak, og kviður, sem eru vöðvar sem nútímamaðurinn á til að vanrækja, sem og jafnvægisvitund og liðleiki, sérstaklega í lærvöðvum, eykst. Börn og fullorðnir geta í akró fundið skemmtilegan leik sem er hægt að stunda hvar sem er og hvenær sem er, það eina sem þarf er sæmilega mjúkt undirlag og örlítið pláss. Þegar það er komið er hugmyndaflugið eina takmörkunin.“

Sigurbjörg segir akró vera fyrir alla. Hjá Akrók Íslandi sé lögð áhersla á að allir geti komið í tíma. Börn skuli þó vera í fylgd með fullorðnum.

„Reynslan samt sýnir að börn eldri en 5 ára geta vel tekið þátt í tímum með foreldrum sínum. En auðvitað er það misjafnt eftir einstaklingum hvernig gengur. Akró er svo frábært því allir geta gert akró, óháð stærð og aldri. Það er alltaf hægt að finna æfingar sem fólk getur gert. Við fáum oft til okkar heilu fjölskyldurnar, foreldra með 2-3 börn sem vinna saman í tímum, það er sérstaklega skemmtilegt. Fjölskyldan getur svo tekið það sem lært var í tíma með sér heim og haldið áfram að leika sér í akró heima,“ segir hún.

Vilji til að fara út fyrir þægindaramma

Sigurbjörg segir að iðkendur þurfi ekki grunn til að stunda akró. Gott sé þó að segja frá meiðslum og öðru sem hrjái viðkomandi.

„Við hjá Akró Íslandi óskum eftir því að fólk sem kemur í fyrsta skipti segi okkur frá meiðslum sem það á við að eiga svo við getum aðstoðað við að finna æfingar sem viðkomandi getur gert. Það hjálpar alltaf til að hafa einhvern grunn í íþróttum, til dæmis fimleikum, dansi eða jóga. En það er langt frá því að vera skilyrði og það er mikill misskilningur að maður þurfi að vera sterkur.“

Sigurbjörg segir akró snúast meira um tækni og jafnvægi en styrk.

„Kennarar Akró Íslands eru að vísu íþróttaálfar og hafa til dæmis grunn í handbolta, fimleikum og kraftlyftingum. Það sem þarf fyrst og fremst er vilji til að fara út fyrir þægindaramman en það er það sem reynist mörgum erfiðast en jafnframt það sem okkur finnst skemmtilegast að takast á við. Í akró er mikil snerting og maður þarf að treysta þeim sem maður er að vinna með 100% og þora að segja frá því ef maður er óöruggur. Í akrótímum eru hins vegar allir komnir til að gera það sama, sem gerir það að verkum að þessi atriði sem geta valdið feimni eða óöryggi sama og hverfa. Fólki finnst fljótt ekkert mál að vinna með ókunnugum og fagna litlum og stórum akró sigrum með þeim sem unnið er með. Það sem við heyrum án undantekninga frá fólki sem kemur í fyrsta skipti er: ,,Ég trúði ekki að ég gæti gert þetta!“ eða ,,Ég gat svo miklu meira en ég bjóst við“.

 

Meira um akródjamm fyrir fjölskylduna

Meira um Akró Ísland

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd