Bókaumfjöllun: Af hverju ég? er miklu meira en bók

Í aðdraganda jóla skellur á bókaflóð. Þetta er skemmtilegasta flóð sem um getur.

Við svömlum í því í Úllendúllen og finnst ógurlega gaman að lesa.

Auður Sigurðardóttir (44 ára) er búin að lesa bókina Af hverju ég? eftir Hjalta Halldórsson.

Þetta segir Auður um bókina:

Strákur sem á ekki vini

Strákurinn Egill á heima í Borgarnesi ásamt foreldrum sínum og eldri bróður. Egill er 11 ára og greinir bókin frá nokkrum atvikum í lífi Egils sem lýsa því hversu „óheppinn“ hann er. Þessi atvik, ásamt fyrri atvikum hafa leitt til þess að Egill er með óþekktarstimpil á sér. Hann hefur munninn fyrir neðan nefið og mikið skap þegar á honum er brotið. Egill lendir því oft í slag og meiðir aðra en það er yfirleitt alveg óvart.

Fjölskyldan öll er orðin þreytt á þessum árekstrum sem Egill á það til að lenda í. Mamma hans andvarpar mikið og biður hann þess áður en haldið er út í daginn að meiða ekki neinn, ekki lenda í slag og vera bara eins stilltur og hann getur. Agli finnst ekki skemmtilegt í skólanum og eins og öðrum fjörugum krökkum reynist honum erfitt að verða við bón mömmu sinnar. Þess vegna hafa margir póstar borist heim frá skólanum til foreldranna.

Í upphafi lestrar hélt undirrituð að hér væri saga um strák sem myndi fá aðstoð frá fjölskyldu og skóla við að setja sig í spor annarra, stoppa sig af og hugsa aðeins áður en hann fer af stað. Með tímanum myndi hann svo eflast félagslega og eignast vini. Ekki fer mikið fyrir ráðum í þeim dúr. Foreldrarnir bregða á það ráð að halda Agli frá viðburðum innan fjölskyldunnar í refsingarskyni og til að eiga það ekki á hættu að hann skemmi fyrir.

Margt býr í stráknum

Arna kennari Egils, sem einnig andvarpar mikið, nær þó að lokum til Egils. Hún spyr hann út í vini hans sem eru nánast engir og fær þá hugmynd að hann skrifi dagbók. Egill er til í það og á endanum verður dagbókin að sögu Egils. Dagbókarskrifin verða til þess að Egill sér að þrátt fyrir allt býr margt í honum og hann, eins og allir aðrir, býr yfir ágætum styrkleikum.

Arna fær þá feðga líka til að mæta til sín í viðtöl sem verður til þess að Egill sér að hann og pabbi hans eiga margt sameiginlegt. Kennarinn Arna kemur því með verkefni fyrir Egil og fjölskyldu hans sem verða til þess að tengslin eflast og Egill fær að einhverju leyti svar við spurningu sinni sem varpað er fram í heiti bókarinnar.

 

Saga sem er meira en bók

Af hverju ég? er kraftmikil saga stráksins Egils. Hún er vel skrifuð og nær vafalítið vel til krakka í grunnskólum landsins. Á köflum er sagan hálf óraunveruleg líkt og sjálf Egils saga Skalla-Grímsonar, en það er eflaust með ráðum gert enda eru vísanir á milli þessara sagna sem ekki verður gerð grein fyrir hér.

Á heimasíðu höfundar, hjaltihalldorsson.com, má finna námsefni sem tengist bókinni og því er leikur einn að nýta söguna í kennslu. Verkefnin eru mjög áhugaverð og fela í sér hæfniviðmið í íslensku fyrir miðstig samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla.

 

Meira um bókina og fleiri bækur útgefandans: Bókabeitan

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd