Bókaumfjöllun: „Ævintýrin mín enda vel í bókinni hans Ævars“

Ísleifur Auðar Jónsson er 9 ára. Hann er að lesa bókina Þitt eigið ævintýri eftir Ævar Þór Benediktsson.

Ísleifur segir bókina skemmtilega og eiginlega endalausa, valmöguleikarnir sem lesendur hafa til að fletta upp á mismunandi endum geri það að verkum að hægt er að lesa bókina aftur og aftur án þess að fá leið á henni því bókin endar aldrei eins.

„Ef mér líkar ekki endir einnar sögunnar þá fletti ég aftur á bak og vel annan möguleika. Það eru nefnilega alltaf tveir til þrír möguleikar fyrir mig til að upplifa ævintýrið. Það skemmtilegasta við ævintýrið er að ég er aðalpersónan og þetta er mitt ævintýri – sem ég ræð hvernig endar.“

„Þótt ég þekki ekki öll ævintýrin þá er bókin mjög skemmtileg,“ segir Ísleifur. Hann nefnir nokkur þekkt ævintýri sem hann hefur lesið sig í gegnum í Þínu eigin ævintýri. Þar á meðal er ævintýrið um Hans og Grétu og Úlfinn og grísina þrjá. Ævintýrin eru samt ekki alveg eins og þau hafa alltaf verið. Sum þeirra eru miklu skelfilegri.

Ísleifur er ekki klár á því hversu ung börn geta lesið Þitt ævintýri. Hann verði ekki hræddur við lesturinn.

Það besta við bókina segir Ísleifur að hún er eiginlega aldrei búin því hann flettir fram og aftur eftir betri endi.

„Ég vil að ævintýrið mitt endi vel eins og öll önnur ævintýri. Ævintýrin mín enda vel í bókinni hans Ævars.“

 

Um Þitt eigin ævintýri

Þitt eigið ævintýri er fjórða bókin í Þín eigin-bókaflokknum. Hinar bækurnar eru Þín eigin þjóðsaga, Þín eigin hrollvekja og Þín eigin goðsaga. Bækurnar hafa hlotið bæði Bókaverðlaun barnanna og Bóksalaverðlaunin.

Þitt eigið ævintýri er eins og tölvuleikir því lesandinn ræður því nokkurn vegin hvernig sagan þróast. Lesandinn er aðalpersónan. Sögusviðið er stórhættulegur ævintýraskógur, stútfullur af furðuverum og óvættum. Lesandi getur endað í úlfsmaga eða látið glepjast af girnilegu piparkökuhúsi. Ýmsar leiðir eru í boði því endarnir eru 50 talsins. Sögulokin spanna allt frá eilífri hamingju til skyndilegs bana.

Ævar Þór Benediktsson er einn vinsælasti barnabókahöfundur landsins og hefur einnig búið til barnaefni fyrir bæði sjónvarp og útvarp sem Ævar vísindamaður. Í ár var hann valinn í AARHUS39, hóp 39 bestu barnabókahöfunda Evrópu undir fertugu.

Myndir í bókinni teiknaði Evana Kisa.

 

Meira um Þitt eigið ævintýri

Meira um Ævar Þór Benediktsson

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd