
Hvert ætlarðu að fara? Björk leiðbeinir þátttakanda í ratleiknum í Heiðmörk. MYND / Björk Sigurðardóttir
Hvernig fær maður þá flugu í höfuðið að búa til ratleik og bjóða fólki að taka þátt í honum án þess að fólk greiði fyrir þátttökuna?
Björk Sigurðardóttir, kennari við Ísaksskóla í Reykjavík, bjó til ratleik sem fór í gang í Heiðmörk sumarið 2012.
Hver eru tildrög leiksins?
„Ég hélt upp á 11 ára afmæli sonar míns í Heiðmörk, á sínum tíma, með því að búa til ratleik fyrir afmælisgestina. Þrátt fyrir að ég þekki Heiðmörk eins og lófann á mér, síðan ég vann þar sem verkstjóri í fjöldamörg ár á vegum Vinnuskóla Reykjavíkur, þá komu í ljós alls kyns meinbugir á ratleiknum,“ segir Björk.
Björk, sem er fararstjóri á Hornströndum fyrir Ferðafélag Íslands, bauð félaginu upp á að gera almennilegan ratleik sem væri varanlegur og myndi nýtast fólki á ýmsum aldri á höfuðborgarsvæðinu.
„Ferðafélagið tók mjög vel í það enda er tilgangur ratleiksins ekki síst sá að fá fólk til að njóta útiveru í fallegu umhverfi,“ segir Björk.
Ratleikurinn í Heiðmörk
Hægt er að fara í ratleik Bjarkar í Heiðmörk allt árið um kring.
Í leiknum reynir á ratvísi, hugmyndaflug, skynjun og styrk þátttakenda. Lesa þarf í skýjafar, vindátt, plöntu- og trjátegundir, sólúr og sögulegan fróðleik.
Reikna má með því að það taki 2-3 klukkustundir að klára ratleikinn. Það er líka hægt að skipta leiknum í tvo hluta og ljúka fyrri hlutanum einn daginn og þeim seinni síðar.
Hvernig er hægt að fara í leikinn?
Prentuð eintök af ratleiknum má finna í póstkassa þar sem ratleikurinn hefst. Þar er einnig póstkassi fyrir útfylltar lausnir. Þið þurfið aðeins að finna skilti Ferðafélagsins við lítið bílastæði og þar leiðir stígurinn ykkur áfram að póstkassanum.
Til að komast að ratleiknum er best að aka Rauðhólamegin inn í Heiðmörk og halda alltaf beint áfram þar til komið er að litlu bílastæði þar sem skilti Ferðafélagsins stendur. Sumir hafa leitað að skiltinu á stærri bílastæðum og lent í vandræðum með að finna upphafsstað ratleiksins. Hafið í huga að fara framhjá Borgarstjóraplani, þar sem stóru steinarnir eru, og framhjá Furulundi. Sem sagt alltaf beint áfram frá Rauðhólum.
Eintök af ratleiknum eru líka á skrifstofu Ferðafélags Íslands og sömuleiðis á vefsíðu Ferðafélagsins og Ferðafélags barnanna.
Veglegir vinningar í boði
Þegar þið hafið lokið leiknum getið þið sett úrlausnir í póstkassann á upphafsstaðnum. Dregið er úr réttum lausnum í desember. Það er því um mánuður til stefnu. Vinningarnir eru veglegir frá Ferðafélagi Íslands og Fjallakofanum.
Ratleikurinn er fyrir börn, unglinga og fullorðna og hentar líka þeim sem eru einir á ferð.
Þar sem ratleikurinn tekur drjúgan tíma er gott að taka með sér nesti til að borða í skóginum. Það getur líka komið sér vel að taka með sér penna og jafnvel lesgleraugu.
Nú er um að gera að drífa sig út að leika og taka stefnuna á Heiðmörk.
Hér að neðan getið þið skoðað spurningarnar í ratleiknum og jafnvel prentað út eintak.