Það er gaman að kunna að tálga fallegan mun úr tré. Bræðurnir Óðinn Bragi og Úlfur Ingi og vinur þeirra hafa farið á tálgunarnámskeið hjá smíðakennaranum Bjarna Þór Kristjánssyni. Þar lærðu þeir að umgangast hnífa, réttu handbrögðin við að tálga og að bora með gamaldags handbor.
Fjöldi krakka var á námskeiðinu og bjuggu þau til flugnaspaða, götuðu leður og fengu líka að negla og hnoða.
Bjarni Þór heldur tálgunarnámskeið á Landnámssýningunni í Aðalstræti um helgina. Þar mun hann kenna börnum að tálga smjörhníf og flautu úr ferskum viði eins og þær sem víkingarnir notuðu.
Í boði eru tvær smiðjur, sú fyrri er klukkan 13:00 og sú seinni klukkan 14:00.
Vinsamlegast athugið að aðeins er pláss fyrir 8 börn í hvorri smiðju. Skráning fer fram í síma 411-6370.
Þátttaka í smiðjunni er ókeypis fyrir börn og fylgdarfólk þeirra. Aðgangur á sýninguna er jafnframt ókeypis fyrir börn en fullorðnir greiða 1.800 kr.