Bestu vatnsdeigsbollurnar!

Bolludagur nálgast. Þetta er besti dagurinn enda er þá hægt að borða það besta í heimi: Rjómabollur með syndsamlega góðu innihaldi.

Það hefur verið hefð fyrir því í meira en 100 ár á Íslandi að borða bollur á þessum degi. Á þessum degi mega börn rassskella foreldra sína í morgunsárið með skrautlegum bolluvendi. En þau verða að kalla hátt og skýrt við hverja flengingu: „Bolla, bolla!“

Bolludagurinn er alltaf á mánudegi og ævinlega sjö vikum fyrir páska. Auðvitað gleyma því flestir strax daginn eftir að miða páskana við bolludag og þurfa því að fletta upp í dagatalinu.

Eldgamall bolludagur

Talið er að bolludagurinn og flengingarnar með bolluvendinum hafi borist hingað með bökurum sem fluttu til Íslands frá Danmörku og hugsanlega Noregi líka um og eftir 1850.

Á alfræðivefnum Wikipedia segir um bolludaginn að upphaflega bárust siðirnir að slá köttinn úr tunnunni og að marsera í grímubúningum frá Danmörku fyrir árið 1870. Það lagðist víða af eftir aldamótin en lifði áfram á Akureyri og færðist árið 1915 yfir á öskudag.

Orðið bolludagur og hann tengdur við bolludagsát sást fyrst á prenti í blaðinu Þjóðólfi árið 1910. Fimm árum síðar fóru bakarí í Reykjavík að auglýsa bollur á bolludaginn.

Æðislegur bolludagur

Það er góð hugmynd að leyfa börnunum að spreyta sig við bollubaksturinn í eldhúsinu með mömmu og pabba. Þau geta byrjað að hræra deigið saman og þeytt rjóma.

Mörgum finnst bolludagurinn ógleymanlegur enda æðislegt að gæða sér á bollu með súkkulaði, sultu og rjóma. Talið er að bakarín á Íslandi baki um eina milljón bolla fyrir bolludaginn. Það gerir um það bil þrjár bollur á mann. Þá eru ótaldar allar bollurnar sem fólk bakar sjálft.

Bollur á bolludeginum eru tvenns konar. Vatnsdeigsbollur og gerbollur.

Vatnsdeigsbollur eru mjúkar og lausari í sér en gerbollurnar, sem eru soldið stífar.

Tiltölulega lítið mál er að gera vatnsdeigsbollur. En auðvitað verður að vanda til verka.

Einföld en góð uppskrift

  • 3 dl vatn í pott.
  • 75 gr smjör
  • 3 dl hveiti
  • 4-5 egg

Setjð vatnið í pott. Setjið smjörið út í og hitið undir. Hrærið smjörinu saman við vatnið og látið suðu koma upp. Hellið nú hveitinu hægt og rólega út í smjörvatnsblönduna. Hrærið þar til hveitiblandan losnar frá pottinum. Látið blönduna kólna. Setjið nú eggin út í hvert á fætur öðru og hrærið saman þar til deig er orðið til.

Notið tvær skeiðar til að búa til litlar bollur. Setjið þær á smjörpappír á bökunarplötu. Stillið ofninn á 200 gráður og bakið bollurnar í 25-40 mínútur. Mikilvægt er að opna ekki ofninn fyrstu 15 mínúturnar því þá er hætt við að bollurnar falli.

Þegar þið teljið að bollurnar eru bakaðar þá takið þið þær út og látið kólna í smá stund. Skerið bollurnar í tvo hluta. Á meðan þið bíðið er upplagt að þeyta rjóma og bræða súkkulaði. Veljið uppáhalds sultuna ykkar.

Þegar bollurnar eru orðnar kaldar þá setjið þið súkkulaði á efri hluta bollanna en sultu og rjóma innan í bolluna.

Nú eruð þið búin að búa til gómsæta rjómabollu!

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd