Viðtal: Bernskan í skugga borgarastyrjaldar

Börn á stríðsvettvangi Spænska borgarastyrjöldin og árin eftir hana voru börnum, sem öðrum, æði erfið um allan Spán. Manúel og Carmen segja frá slíkum högum.

Þeim, sem nú eru að slíta barnsskónum, þykir eflaust lítið um það hvernig fólk á þeirra reki hafði það í og eftir spænsku borgarastyrjöldina (1936-1939). Eða hvað?

Jón Sigurður Eyjólfsson er fulltrúi Úllendúllen á Spáni. Hann fékk sómahjónin Manúel Montoya, áttatíu og fimm ára, og Carmen Sánchez, sjötíu og sjö ára, frá Zújar í Andalúsíu, til að segja okkur hvernig var að vera ungur í sáru og fátæku þjóðfélagi.

Með geitur á beit og asna uppá fjalli

„Það var ekki mikill tími til að leika enda vorum við strákarnir látnir vinna um leið og við gátum komið að einhverju gagni,“ segir Manúel. „Ætli ég hafi ekki verið sjö ára þegar ég var fyrst látinn fara með kindur og geitur á beit. Svo vorum við látnir fara með þeim fullorðnu að ná í eldvið en hann var að finna hér í bröttum fjallshlíðum og það varð að klöngrast þetta með asna til að bera viðin heim. Þegar við urðum eldri hófst síðan vinnan útá akri.“ Einmitt á akrinum hefur mest allt hans ævistarf farið fram og þar var ekkert elsku mamma, hvorki fyrr né síðar. Stundum var hann yfir nóttu að störfum, til dæmis við að vökva enda urðu bændur, gjör oss svo vel að standa í lappirnr með verið var að skammta vatni á þeirra jörð.

Manúel Montoya Það var lítill tími fyrir leiki og ekkert prjál í kringum afmæli, segir akurbóndinn.

Gengið á stultum og farið í höfrungastökk

En hvað gerði ungdómurinn þegar færi gafst til leikja? „Það var stundum hægt að fá tuskur til að setja saman í bolta og svo var alltaf auðvelt að búa til stultur úr heppilegum greinum eða prikum. Svo var nokkuð um það að við færum í höfrungastökk, sumir voru býsna lunknir, til dæmis var einn sem stökk heil ellefu fet.“

Carmen, af sinni hæversku, þykist fullviss um að hennar bernska eigi ekkert erindi við lesendur Ullendullen. En þegar hún loks lætur vaða, komumst við að því að svo er ekki: „Við stelpurnar komum saman heima hjá einhverri okkar og saumuðum meðan við töluðum saman,“ segir hún loks. „Það var afskaplega skemmtilegt svo við þurftum ekkert að öfunda strákana þó þeir væru frjálsari en við. Við vorum venjulega margar saman og það fór afar vel á með okkur, við hlógum mikið og ekkert örlaði á öfund og leiðindum sem mér finnst vera svo algengt hjá þeim í dag. Ég átti margar vinkonur og þótti vænt um þær allar og þegar við eldumst héldum við sambandi og hringdumst líka á.“

Foreldrarnir vissu ekkert um afmæli barnanna

Manúel var tíu ára þegar borgararstyrjöldinni lauk. Hann man ennþá eftir viðvörunum eldra fólksins sem sagði krökkunum að leita sér skjóls undir trjám ef flugvélar færu yfir. Þó víglína lægi fjarri sveitinni litaði stríðið tilveruna í Zújar. Margir bæjarbúar fóru á vígvöllinn, skæruliðar fóru líka um og tóku heilu fjölskyldurnar í gíslingu og stundum kom til blóðsúthellinga.

Það virðist alveg ljóst að þeir fullorðnu voru ekkert fyrir neitt prjál útaf börnum sínum. Það kemur berlega í ljós þegar ég spyr Manúel hvernig haldið hafi verið uppá afmæli barna á þessum tíma. „Uss, það var ekkert verið að spá í það, blessaður vertu,“ segir hann. „Foreldrarnir voru heldur ekkert með það á hreinu hvenær þá daga bar upp. Ég stóð til dæmis lengi í þeirri trú að ég væri fæddur 7. mars enda voru foreldarar mínir ekkert með þetta á hreinu. Ég var síðan kominn yfir tvítugt þegar þjóðskráin færði mig í sanninn um að ég ætti afmæli einni viku síðar. Þetta gat hæglega gerst á bestu bæjum,“ segir hann og hlær við.

Carmen Sánches Það var mikið fjör hjá þeim stelpunum í gamla daga.

Eina útvarpið í bænum

Ennþá höfum við ekkert minnst á skólann, enda voru menntamálin alls ekki beisin í þessu þorpi þar sem flestir voru ólæsir. „Við vorum send til manna sem kunnu að draga til stafs og þeir kenndu okkur eitt og annað. En það gerði svo sem heldur ekkert til ef þú mættir ekki.“

Zújar var ekki laust við listamenn og stundum komu tónlistamenn saman í einhverju heimahúsinu og þá var velvöldum hleypt inn. En svo hljómaði líka úr tæknitólum. „Ég man þegar ég heyrði fyrst í útvarpi,“ rifjar Manúel upp. „Það var í borgarastríðinu. Einn af þessum ríku í þorpinu, kaupmaður mikill, hafði þá eignast útvarp og til þess að fólkið gæti fylgst með tíðindum af vígvellinum þá setti hann það úti á svalir og síðan stóð fólkið þar undir og fylgdist með gangi máli. Svo kom að því að systir mín eignaðist útvarp og þá komu ófáir úr nágrenninu til að hlýða á.“

Þá rifjast eitthvað upp hjá Carmen. „Þegar við stelpurnar sátum saman við saumskapinn þá hlustuðum við stundum á útvarpið eftir að það kom til. Þá var við líði óskalagaþáttur sem var gríðarlega vinsæll og við hlustuðum á hann meðan við saumuðum flíkur eða dúka.“

Zújar Sómahjúin búa í þessu fallega þorpi í Granadahéraði.

Varið ykkur á vímuefnunum!

Þegar þau hjón eru spurð um heilræði fyrir unga fólkið í dag, segir Carmen að best sé að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur og fara hægt í sakirnar, láta hvortki græðgi né hroka villa sér sýn. Manúel er sama sinnis, en tekur það líka fram að vinnusemi borgi sig og það að vara sig á vímuefnunum, en æskan í Zújar var blessunarlega laus við mestu vá af þeim toga.

Við getum kannski ekki dæmt um það hvort það hafi verið svo gaman að vera barn á þessum tíma en hinsvegar sést það á þeim hjónum að það býsna gaman að rifja það upp.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd