Berjamó og barnatónleikar í Ólafsfirði

Það er líf og fjör í Ólafsfirði um helgina. MYND / Berjadagar.

Það er líf og fjör í Ólafsfirði um helgina. MYND / Berjadagar.

Núna um helgina 12.-14. ágúst 2016 verða Berjadagar haldnir í Ólafsfirði í átjánda sinn. Þetta er tónlistarhátíð fyrir alla fjölskylduna og í viðtali við Fréttablaðið ítrekar Ólöf Sigursveinsdóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, sérstaklega að þau vilji sjá fleiri börn mæta á hátíðina.

Klukkan 15 á morgun, laugardag, verða barnatónleikar í Pálshúsi, en Pálshús er gamalt endurbyggt verslunarhús sem nú fær splunkunýtt hlutverk sem safnahús. Þar mun sópransöngkonan Þórunn Elín Pétursdóttir rifja upp gamlar íslenskar þulur og orðaleiki fyrir börn en þau Kjartan Guðnason og Ólöf Sigursveinsdóttir munu aðstoða hana, auk þess sem Kjartan mun kynna heim slagverkshljóðfæranna fyrir gestum

Það er líka spennandi dagskrá fyrir krakka strax í kvöld, en þá hefst hátíðin með tónleikum í Ólafsfjarðarkirkju, þar sem fluttar verða nýjar útsetningar á íslenskum barnagælum eftir Báru Grímsdóttir, og eru útsetningarnar fyrir sópran, slagverk og selló. Einnig verða flutt frumsömd lög Báru við íslenskar þjóðvísur. Auk þess hljómar verkið Lysting er sæt að söng eftir Snorra Sigfúsar Birgissonar og á síðari hluta tónleikanna verður fjölbreytt efnisskrá með sönglögum eftir menn á borð við Grieg, Sibelius og Mahler.

Þórunnar Elín Pétursdóttir og Sólveig Anna Jónsdóttir munu flytja lögin og með þeim mun Kjartan Guðnason leika á slagverk og Ólöf Sigursveinsdóttir á selló.

 

Sigursveinn í tónskólanum

Berjadagar í ár eru tileinkaðir Sigursveini D. Kristinssyni, sem fæddist fyrir 105 árum síðan, en hann var ekki bara gott tónskáld heldur var honum líka mikill uppeldisfrömuður og var umhugað um að börn gætu lært um tónlist. Hann stofnaði því Tónskóla Sigursveins árið 1964, sem þá var rekinn í húsnæði Austurbæjarskóla en er núna með aðsetur á þremur mismunandi stöðum, á Engjateigi, í Hraunbergi og Árseli.

Það er ókeypis fyrir börn yngri en fimmtán ára á alla viðburði, en ef þau vilja taka foreldrana með sér þá kostar hátíðarpassi 6500 krónur fyrir fullorðna, en einnig er hægt að kaupa staka miða á 2500 (tónleikar) eða 3000 (leikhús).

Milli viðburða geta hátíðargestir svo farið í berjamó, en fréttir berast nú af því að spretta sé með allra besta móti eftir hlýtt og sólríkt sumar.

Dagskrá hátíðarinnar og nánari upplýsingar má svo finna á síðunni berjadagar-artfest.com.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd