Þjóðminjasafn Íslands býður upp á ókeypis barnaleiðsögn um ganga safnsins á sunnudag, 4 september klukkan 14:00. Leiðsögnin er fyrir alla fjölskylduna og alveg ókeypis. Leiðsögnin er um 45 mínútur og er öllum gestum velkomið að halda áfram að ganga um og skoða Þjóðminjasafn eftir að leiðsögninni lýkur.
Ýmsir spennandi munir á safninu verða sýndir. Þar eru beinagrindur, 1000 ára gömul sverð og leikföng.
Boðið hefur verið upp á barnaleiðsögn um Þjóðminjasafnið fyrsta sunnudag í mánuði yfir vetrartímann í nokkur ár. Margar fjölskyldur hafa mætt og hefur alltaf verið vel sótt í leiðsagnirnar á Þjóðminjsafninu.
En hvað finnst börnum gaman að sjá á Þjóðminjasafninu?
Börnin vilja koma aftur og aftur
Safnkennarinn Helga Einarsdóttir veit svarið.
„Börnum finnst yfirleitt alltaf virkilega gaman að koma á Þjóðminjasafnið, stundum eru sum (aðallega kannski unglingarnir) kannski mjög skeptísk á að Þjóðminjasafnið sé eitthvað spennandi. En yfirleitt náum við þeim með því að gera safnið og gripina lifandi og tengja þá við daglegt líf.“
„Börn sem koma með leikskólanum sínum eða grunnskóla hafa kannski ekki alltaf tækifæri til að sjá alveg allt sem þau vildu sjá og þannig gefst þeim tækifæri á að koma aftur og líka til að upplifa safnið með foreldrum sínum. Það er alltaf svo gaman að heyra þegar börn hafa haft svo gaman af skólaheimsókn á safnið að þau draga foreldra sína með sér aftur á safnið og yfirleitt skemmta allir sér svo vel og finnst gaman á safninu,“ segir hún.
Hellingur af gömlum hlutum
Helga segir börnum á öllum aldri – og fullorðnum reyndar líka – finnast mest spennandi að sjá beinagrindurnar. Þær eru frá landnámstímanum og því meira en þúsund ára gamlar.
„Það er ótrúlegt að sjá leifar af manneskju sem var til fyrir meira en 1000 árum síðan. Það hefur alveg komið fyrir að litlir krakkar hafa verið hræddir við beinagrindina en hins vegar göngum við úr skugga um að segja börnunum að ekkert sé að óttast, enda erum við öll með beinagrind inni í okkur, það væri eins og við værum hrædd við sjálf okkur!“
Hvaða gamli matur er þetta?
Helga segir að beinagrindin sé ekki það eina frá landnámsöld sem til er á Þjóðminjasafninu. Þar er líka varðveittur 1000 ára gamall matur.
Helga vill ekki segja hvurslags matur þetta er.
„Þeir sem vilja komast að því hvaða matur það er skulu endilega koma í leiðsögnina á sunnudaginn,“ segir Helga.
Nú er bara um að gera fyrir fjölskylduna, krydda svolítið þennan fyrsta sunnudag í september og skella sér í ókeypis leiðsögn um Þjóðminjasafnið klukkan 14:00!
Hvenær er opið á Þjóðminjasafninu?
Sumar: 1. maí – 15. september: kl 10:00:-17:00 alla daga.
Vetur: 16. september – 30. apríl: kl 10:00-17:00 þriðjudaga til sunnudaga en lokað á mánudögum.
Veitingastofan Kaffitár er yfir sumarið opin á sama tíma og safnið. Á veturna klukkan 9:00-17:00 frá þriðjudegi til föstudags en klukkan 10:00-17:00 um helgar. Veitingastofan er lokuð á mánudögum.