Anna á Þjóðminjasafninu: Börnin fá að sjá pott sem álfar misstu og elstu hurð á Íslandi

Anna ásamt hópi skólabarna í 5. bekk.

„Krökkum finnst alltaf gaman að koma á Þjóðminjasafnið. Margir koma með skólahópum og skoða valda hluti á safninu eða sjá jólasveinana í desember. Ég hitti marga skólahópa og það er alltaf jafn skemmtilegt,“ segir Anna Leif Elídóttir, sérfræðingur á Þjóðminjasafninu.

Anna mun á sunnudag stýra barnaleiðsögn um Þjóðminjasafnið. Ekkert kostar í leiðsögnina og eru allir velkomnir.

Anna segir margt skemmtilegt verða skoðað á sunnudag. Þar á meðal er gamall og dularfullur álfapottur og 800 ára gömul hurð.

„Dularfulli álfapotturinn fannst vestur á fjörðum fyrir langa löngu á Nýársnótt. Það var maður að nafni Pálmi sem sá álfafjölskyldu sem var að flytja með allt sitt hafurtask á bakinu og í fanginu. Hann trúði nú ekki að álfar eða draugar væru til en fylgdist vel með. Aftast var lítið barn sem rogaðist með eitthvað þungt og var að dragast aftur úr hópnum. Þegar barnið varð hans vart sleppti það því sem það hélt á og hljóp til móður sinnar. Hann sótti það sem barnið hafði verið með og það var þessi undarlegi litli pottur. Hann fór heim með pottinn og geymdi ofan í kistu. Potturinn var svo í fjölskyldu mannsins í mörg ár áður en hann rataði á Þjóðminjasafnið,“ segir Anna.

Það verður spennandi að skoða þennan pott!

Nánar má lesa um pottinn hér: http://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=319297

Gamla hurðin sem börnin fá að skoða er sjálf Valþjófsstaðahurðin sem var fyrir dyrum kirkjunnar í Fljótsdal frá um 1200 til ársins 1852. Þetta er einn merkasti forngripur íslensku þjóðarinnar. Um miðja 19. öld lá hurðin undir skemmdum. Hún var tekin niður og flutt til Danmerkur til varðveislu. Danir skiluðu henni svo í tilefni Alþingishátíðarinnar árið 1930.

Myndskreyting á Valþjófsstaðahurðinni ævafornu.

Um hurðina segir Anna:

„Á hurðinni eru tveir hringir þar sem út hafa verið skornar myndir. Önnur myndin sýnir fjóra dreka í fléttu eða hnút og þeir bíta hver í annan. Hin myndin sýnir riddarasögu sem þekkt er frá miðöldum. Þar frelsar riddarinn ljón úr klóm dreka og ljónið verður svo þakklátt að það fylgir riddaranum eftir eins og hundur æ síðan.  Hurðin var upprunalega einum þriðja stærri og þar var líkalega einn útskorinn hringur enn. Hann er glataður og enginn veit hvar hann er.“

Nánar má lesa um hurðina hér: http://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=313037

Í heimsókn í Þjóðminjasafnið er hægt að sjá hluti frá allri Íslandssögunni. Til dæmis hnefatalf sem fannst í kumli í Mývatnssveit árið 1860. Hnefataflið er frá tíundu öld. Ekki er vitað með vissu hvernig taflið fór fram en í taflinu eru 24 töflur, teningur sem nefnist húnn og mannslíkan úr hvalbeini. Það væri alveg hægt að búa til leik sem líkist tafli og nota hnefa eins og þá sem fundust í kumlinu. Sagt er að helmingur hnefanna hafi verið málaðir rauðir þegar þeir fundust í jörðinni.

Svo eru líka margar málaðar myndir af Guðbrandi biskupi sem lét prenta 500 biblíur eftir siðaskiptin hér á Íslandi.

„Mér finnast myndirnar af Brynjólfi svolítið merkilegar þar sem ég hef komist að því að ég er beinn afkomandi hans í þrettánda lið. Það hefði nú verið gaman það þekkja hann,“ segir Anna á Þjóðminjasafninu.

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd