Hrafnhildur í Norræna húsinu: Við hjálpum fólki að tengjast betur

„Þessi baltneska menningarhátíð hefur verið algjört ævintýri. Það hafa verið tengsl milli Norðurlandanna og þeirra baltnesku frá því að þau fengu sjálfstæði sitt árið 1990. Norræna húsið er samkomuhús Norðurlandanna. En við höfum verið að stækka það og með baltnesku menningarhátíðinni lítur fólk frá fleiri löndum á það sem húsið sitt,”segir Hrafnhildur Gissurardóttir, fræðslufulltrúi og verkefnastjóri fræðslustarfs Norræna hússins.

Baltnesk barnamenningarhátíð hefur staðið yfir í Norræna húsinu frá 20. apríl og verður til 14. júní 2021.

Ýmislegt hefur verið gert á hátíðinni sem hefur það að markmiði að kynna baltneska menningu á fjölbreyttan og skapandi hátt í samstarfi við einstaklinga með baltneskan bakgrunn. Á fyrstu viku hátíðarinnar var skólahópum boðið í klippimyndasmiðju sem var tileinkuð sögulegum byggingum í Vilníus, höfuðborg Litháens. Síðan hefur verið boðið upp brúðugerð, hljóðfærasmiðju, föndur- og sögusmiðju um grassnák. Einnig hafa átt sér stað  sögustundir á litháísku og lettnesku og eru bækur á eistnesku, litháísku og lettnesku aðgengilegar til lestrar á bókasafninu í samstarfi við Móðurmál er máttur.  Um miðjan maí buðu svo nemendur lettneska skólans í Reykjavík upp á skemmtilegan og sumarlegan viðburð, þar sem var dansað, spiluðu tónlist og farið í útileiki.

Nýlegar og þekktar bækur sem hafa verið þýddar á eistnesku, litháísku og lettnesku.

Um miðjan maí buður svo nemendur lettneska skólans í Reykjavík upp á skemmtilegan og sumarlegan viðburð.

En af hverju baltneskir viðburðir í Norræna húsinu?

Hrafnhildur segir því auðsvarað:

„Fólk með erlendan bakgrunn eiga hættu á að missa af svo miklu. Ég hef sjálf verið útlendingur í þeim löndum sem ég hef búið í og fundið fyrir því að það er heilmikil vinna að tengjast nýrri borg og samfélagi, sérstaklega ef maður kynnist ekki íbúum landsins,‟ segir hún og bætir við að þótt erfitt sé að koma sér inn í samfélagið þá skili vinnan sér á endanum.

Norræna húsið fékk styrk frá Barnamenningarsjóði til að bjóða upp á Baltnesku barnamenningarhátíðina og fleiri viðburði til að tengjast betur fólki frá Eystrasaltsríkjunum og tengja löndin saman.

„Það er mikilvægt að auðvelda fólki að taka þátt í samfélaginu. Við erum að gera það í Norræna húsinu og ætlum að halda því áfram í sumar og vetur,‟ segir hún.

„Við viljum halda verkefninu lifandi og hafa samfellu í dagskránni sem tengja norrænu löndin og þau baltnesku betur saman,‟ heldur hún áfram. Liður í því er að tryggja að þátttakendur í verkefnum og viðburðum Norræna hússins séu einnig frá Lettlandi, Litháen eða Eistlandi.

„Við pössum okkur vel á því að sjónarhorn fólks frá baltnesku löndunum sé tekið með inn í dagskrána með einum eða öðrum hætti,‟ heldur Hrafnhildur áfram.

Viðburðirnir fara fram um allt Norræna húsið; á útisvæði, í myndlistarrýminu Hvelfingu, í Salnum en líka í kjallara bókasafnsins þar sem barnahellirinn er. Fyrir sumarsýninguna Steinskröltarar -bjuggum við til flottan helli með klifurvegg og ljóðum upp um alla veggi og stafavegg sem hægt er að leika sér með.

Dularfull skógarferð

Laugardaginn 12. júní býður Norræna húsið upp á ókeypis smiðju fyrir 5-10 ára börn. Smiðjan er í tengslum við baltnesku barna menningarhátíðina og er sú síðasta sem haldin er í tengslum við hátíðina.

Í smiðjunni verður gestum hússins boðið í þykjustuskógarferð þar sem hægt er að læra um villidýr í eistneskum skógum. Kennarar smiðjunnar, Lemme Linda og Johanna ólust upp í Eistlandi og fóru oft í skógarferð með foreldrum sínum þegar þær voru litlar, þar sem þær sáu margt skemmtilegt og lentu í ýmsum ævintýrum.

Þær Lemme og Johanna bjóða nú í þykjustuskógarferð og segja þátttakendum frá villidýrum í eistneskum skógum, sýna myndir, læra nokkur hreyfilög, fara í spurningaleik og gera skógarföndur.

Eistland er lítið land og þar eru fáar stórar borgir og er landið þekkt fyrir fallega, hreina og villta náttúru. Helmingurinn af Eistlandi er þakinn stórum dularfullum skógum og þar lifa villidýr á borð við úlfa, skógarbirni, elgi, héra, villisvín, broddgelti og fleiri dýr sem fyrirfinnast ekki á Íslandi.

Lemme Linda Saukas Ólafsdóttir er tónlistar- og tungumálakennari og hefur nýlega lokið MA í listkennslu frá Listaháskóla Íslands. Johanna Raudsepp er með MSc-gráðu í Umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands.

Vinsamlegast skráið ykkur með því að senda tölvupóst með nafni og kennitölu á hrafnhildur@nordichouse.is

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd