Bakhjarlar gera gullkistu af hugmyndum

Alltaf er gaman að ramba á skemmtileg og gagnleg tenglasöfn sem gefa fólki góðar hugmyndir. Hagnýtir tenglar bakhjarla skóla- og frístundastarfs er ákkúrat svoleiðis vefsíða.

Þetta er glás af dásamlegum hugmyndum tengdum leik, listum, menningu, samveru, náttúru og námi fyrir börn á öllum aldri og allskonar hár sem kennarar, listafólk og foreldrar hafa tekið saman, gefið og glatt til að létta undir öllum öðrum undanfarnar vikurnar.

Að baki tenglasafninu stendur reynslumikið fræðifólk og kennarar af Menntavísindasviði Háskóla Íslands og öðrum fræðasviðum skólans, Háskólanum á Akureyri og Heimili og skóla. Bakhjarlarnir eiga það sameiginlegt að vilja láta gott af sér leiða með ráðgjöf og stuðningi í þeim óvenjulegu aðstæðum sem nú eru uppi í samfélaginu.

Á vefsíðu verkefnisins segir að starfsfólk skóla- og frístundastofnana, sveitarfélög og stjórnvöld geti óskað eftir ráðgjöf og stuðningi bakhjarlanna við margháttuð verkefni, þróun lausna í skóla- og frístundastarfi, endurskipulag kennslu og margt fleira.

Auðvelt að fá hugmynd

En í raun er tenglasafnið fyrir alla áhugasama.

Því er skipt upp í efnisflokka: Foreldrar og fjölskylda, leikir og samvera; listir, menningar og samfélag; nám og kennsla; upplýsingatækni, tölvur og öpp; nýsköpun, náttúru- og stærðfræði; tungumál, móðurmál og íslenska; námsefni og bækur; kórónaveiran og að lokum hugmyndabankar óháð viðfangsefnum.

Í stuttu máli er þetta æðislegt safn tengla fyrir alla og um að gera og nota þá til að fá góðar hugmyndir.

Hægt er að smella á myndina hér að ofan til að fara á safnið og fá hugmynd að einhverju dásamlegu að gera.

Góða skemmtun!

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd