Auður og Halla stýra vinnustofu fyrir börn sem vilja gera lítil hús

„Það er alltaf gaman og auðveldara að gera eitthvað sem er pínulítið. Þá getur maður nefnilega gert hvað sem er og það strax,“ segir vöruhönnuðurinn Auður Ösp Guðmundsdóttir.

Hún og Halla Kristín Hannesdóttir, sem líka er vöruhönnuður, stýra vinnustofu fyrir káta og skapandi krakka og fjölskyldur þeirra í vetrarfríinu í grunnskólum í Garðabæ. Vinnustofan er í Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ og aðeins miðvikudaginn 21. febrúar á milli klukkan 13:00 – 17:00. Ekkert kostar að taka þátt í vinnustofunni og er hún í boði Hönnunarsafnsins.

Byggt smátt

Í vinnustofunni geta gestir komið, sett saman smáhús sem þær Auður og Halla hafa sagað út og mótað. Allir þátttakendur í vinnustofunnifá þrjá veggi og gólf fyrir smáhúsið auk húsgagna og allskonar muna sem geta prýtt hvaða heimili sem er.

Gluggarnir í húsunum eru til í alvöru en þeir eru gerðir eftir ljósmyndum sem þær Auður og Halla tóku af húsum í Vesturbæ Reykjavíkur og Hlíðunum fyrir nokkrum árum áður en þær fóru í framhaldsnám í vöruhönnunun.

„Við höfum nefnilega haft áhuga á svona smáum hlutum lengi,“ segir Auður en þær voru m.a. með sýningu á smáhlutum á Hönnunarmars fyrir nokkrum árum og vinnustofur fyrir grunnskólabörn í vetrarfríi í Reykjavík í fyrra.

Auður segir vinnustofuna henta börnum á öllum aldri. Þetta snúist eðlilega mikið um að vera góður í höndunum, vera skapandi og svo reyni á þolinmæði þegar beðið er eftir því að veggir límist saman.

Fullorðnir eru líka velkomnir. Börn undir 10 ára aldri þurfa að vera í fylgd með fullorðnum.

Aðeins komast um 15 börn í vinnustofuna á miðvikudag og því er ágætt að þátttakendur skrái sig til leiks svo hús og húsgögn verði til fyrir alla.

 

Meira sem er í boði í vetrarfríinu í Garðabæ

 

 

Hér má sjá fleiri myndir af smáhúsum þeirra Auðar og Höllu á síðasta námskeiði þeirra.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd