Ásta Þöll: Börnin læra skapandi hugsun á tölvur

Tölvu og tæknismiðja Kóða og Borgarbókasafns.

Borgarbókasafn Reykjavíkur bryddar upp á gagnlegri og áhugaverðri nýjung í Gerðubergi og Spönginni í Grafarvogi eftir skóla á fimmtudögum og laugardögum í nóvember. Þetta eru tækni- og tölvusmiðju fyrir börn á ýmsum aldri. Námskeiðin eru samstarfsverkefni Borgarbókasafns og samtakanna Kóder sem vinna að því að kynna tölvur og möguleika tækniþekkingar fyrir börnum. Það besta auðvitað er að námskeiðin eru ókeypis. Í sumum tilvikum er nauðsynlegt að skrá börnin á námskeiðin þau svo þau komist að.

Ítarlegar upplýsingar um staðsetningu er að finna neðst í greininni.

Smelltu hér: Soffía Ingibjargar hjá Kóder í viðtali

Á námskeiðunum fá börnin kennslu í ýmislegu gagnlegu. Þau skoða Minecraft og aðra leiki, breyta kóðum og skapa eitthvað nýtt. Notast er við smátölvunar Rasperry Pi. Notendur þurfa ekki að eiga tölvu til að taka þátt heldur útvega Kóder þátttakendum allan búnað.

Rasperry Pi er lófastór og mjög ódýr smátölva sem kom á markað árið 2012. Hér er hægt að lesa meira um tölvuna.

Okkur hjá Úllendúllen langaði auðvitað til að vita meira og höfðu samband við hana Ástu Þöll Gylfadóttur, verkefnastjóra nýsköpunar og þróunar hjá Borgarbókasafni.

 

Tæknilæsi barna er lykilatriði

Hvernig datt ykkur í hug að bjóða upp á þessi námskeið? 

Ásta segir tæknilæsi eitt af lykilatriðum í menntun barna í bland við gagnrýna og skapandi hugsun. Það sé því hlutverk bæði skóla, foreldra og menningarstofnana á borð við bókasöfn að styðja börnin í þjálfun og þekkingaröflun. Enn sé langt í land að börn hafi aðgengi að tölvubúnaði og kennslu. Með námskeiðunum komi Borgarbókasafn til móts við það.

„Bókasöfn og hlutverk þeirra í samfélaginu hefur verið í mikilli þróun síðustu árin og færst nær því að vera lifandi opin rými fyrir fólk að hittast, fræðast, upplifa, leika og læra. Eitt af því sem við sjáum mikið erlendis er að bókasöfn eru vettvangur til að miðla nýjungum og ýta undir þekkingaröflun á breiðum vettvangi, ekki síst með því að auka aðgengi að ýmiskonar tölvum og tækni,“ segir Ásta.

„Það er líka ánægjulegt að sjá ýmis átaksverkefni og hvað það hefur verið mikill áhugi á að forritun verði hluti af grunnmenntun barna. Þrátt fyrir þetta flotta starf er enn langt í land með að öll börn hafi aðgengi að búnaði, eða slíkri þjálfun í skóla og heima og þá byggir það meira á einstökum drífandi og áhugasömum kennurum eða skólum sem og hvetjandi foreldrum,“ segir Ásta.

Kóði Borgarbókasafn

Hún bendir á að námskeiðin og tilraunaverkstæðin á Borgarbókasafni eru hugsað sem viðbót við þá flóru af þeim tölvu- og tækninámskeiðum sem nú þegar eru í boði fyrir börn. Fyrir marga geti námskeiðin á bókasafninu verið fyrsti vettvangur til að kynnast tækninni og æfa sig, en ekki síður verið staður fyrir samveru og innblástur, bæði fyrir fjölskyldur og fyrir krakka að sameinast í forvitni og leik – og læra í leiðinni.

 

„Ég hafði samband við samtökin Kóder í byrjun sumars og leitaði eftir samstarfi við þau, þar sem bókasöfnin gætu verið vettvangur fyrir ýmiskonar tæknismiðjur og námskeið sem væru í takt við þeirra hugsjónir um að miðla forritunarþekkingu til sem flestra.  Í sameiningu þróuðum þessi tilraunaverkstæði með Soffíu kennslustjóra Kóder auk Nönnu Guðmundsdóttur og Örnu Björk Jónsdóttur sem eru barnabókaverðir í Spönginni og Gerðubergi. Reynsluna frá öllum verkefnum haustsins nýtum við síðan í að þróa dagskrá fyrir komandi ár.“

Ásta bætir við:

„Til þess að börn kynnist forritun og tækni þá er tilvalið að hvetja foreldra líka til að þekkja möguleikana. Tilraunaverkstæðin sem haldin verða á laugardögum eru hugsuð sem opin rými þar sem foreldrar og krakkar geta komið saman og kynnst eða fiktað í forritun í Raspberry pi tölvum og með aðstoð leiðbeinenda Kóder.  Námskeiðin á fimmtudögum eru hugsuð sem tilraun til að bjóða upp á námskeið á safninu þar sem börn geta komið beint eftir skóla. Mikill skortur hefur verið á tilboðum fyrir þennan aldur á milli 9-14 ára sem ekki eru lengur frístundaselum grunnskólanna og myndu njóta þess að hitta aðra krakka og læra spennandi hluti í hverfissafninu sínu. Við viljum gjarnan koma á móts við þennan hóp með ýmsum hætti á komandi ári.“

 

Fengu styrk til að kaupa tölvur

Á þessum námskeiðum  sem haldin verða í nóvember eru nýttar Raspberry Pi tölvur og búnaður frá Kóder. Leiðbeinendur verða alltaf bæði frá Kóder og Borgarbókasafninu.

Ásta segir bókasafnið hafa fengið styrk til kaupa á tölvum sem verði vonandi notaðar á næsta ári.Ásta Þöll Gylfadóttir

„Við fengum úthlutun úr barnamenningarpotti menningar og ferðamálasviðs og erum að vinna í að kaupa okkar eigin tölvur fyrir næsta ár. Þá getum við vonandi bæði boðið fjölskyldum upp á að almennan aðgang að Raspberry Pi þegar þau koma á safnið auk þess að skipuleggja styttri eða lengri námskeið sem hluta af helgardagskrá og eftir skóla,“ segir Ásta.

 

Námskeið í fleiri söfnum

Fyrst um sinn verða tilraunaverkstæðin í menningarhúsunum í Gerðubergi og Spönginni. Ásta vonar að gangi tölvukaupin eftir verði námskeiðin í fleiri menningarhúsum. Markmiðið er einnig að tvinna saman leik, tækni, frásagnargleði og hönnun með ýmsu móti og kynna gesti safnsins á öllum aldri fyrir nýjungum.

„Tæknifikt og þessi nálgun við forritunarkennslu er alls ekki bara fyrir börn, þó fyrstu námskeiðin okkar miðist við þennan aldurshóp,“ segir hún.

 

Vekja áhuga barna á tækni

Hvað vonist þið til að börnin læri mikið á námskeiðunum?

Ásta segir tilraunaverkstæðin hugsuð til að vekja forvitni og áhuga, þar sem bæði börn og fullorðnir fá örlitla innsýn í hvað það getur verið skemmtilegt og lærdómsríkt að læra að forrita og fikta í tækni.

„Ef verkstæðunum tekst að vekja áhuga krakka og foreldra þeirra á að kynna sér forritun er markmiðinu náð,“ segir hún og bætir við að í framhaldinu megi mögulega nýta sér eitthvað af þeim fjölmörgu ókeypis eða ódýru leiðum sem eru í boði til að þjálfa slíka færni á vefsíðum og open source forritum einsog Raspberri Pi tölvurnar nýta fyrir þá sem hafa fengið brennandi áhuga á tölvum og tækni.

 

Tvenns konar námskeið

Námskeiðin hjá Borgarbókasafni eru tvenns konar, eftir skóla og á laugardögum og eru þau mismunandi:

„Námskeiðin sem eru eftir skóla eru aðeins annars eðlis, þar verða annarsvegar teknir fyrir leikir og forritun með áherslu á samvinnu, þrautir og forritun á borð við Minecraft með Python-forritunarmálinu.  Þau munu ekki læra forritunarmálið í sjálfu sér á svo skömmum tíma, heldur fá þau innsýn í hvernig kóði virkar, að skilja lógíkína í helstu skipunum, hvernig má breyta og bæta í kóða og sjá strax hver útkoman er.“

Hitt námskeiðið segir Ásta vera með áherslu á tónlist og forritun. Þar er notað forritið Sonic Pi til að þjálfa forritunarlógík nema með því að skapa tónlist. Áherslan er ekki á kóðann í sjálfu sér, heldur á skapandi útkomu og tilraunir til að kenna grunnhugsun forritunar.

„Krakkar eru ótrúlega fljótir að sjá möguleikana og læra lykilatriðið  – að læra með því að leika sér, fikta sig áfram og hræðast ekki að gera eitthvað rangt,“ segir Ásta Þöll að lokum.

Nú bara verður fjölskyldan að skella sér á tækni- og tölvunámskeið hjá Borgarbókasafni!

 

Námskeiðin eru eftirfarandi:

5. nóvember – Tækni- og tilraunaverkstæði í Gerðubergi

10. nóvember – Forritun og leikir fyrir 9-12 ára í Gerðubergi

12. nóvember – Tækni- og tilraunaverkstæði í Spönginni

17. nóvember – Tónlist og forritun fyrir 9-13 ára í Gerðubergi

19. nóvember – Tækni og tilraunaverkstæði í Gerðubergi

24. nóvember – Tónlist og forritun fyrir 9-13 ára í Spönginni

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd