Veðrið hefur ekki verið gott á Suðurlandi og leikið við fáa í Reykjavík um helgina. Þegar vind hefur lægt hafa þeir sem leggja í að fara út dustað rykið af regnhlífum og aðrir klætt sig vel.
En hvað gera fjölskyldur í leiðindaveðri á sumrin?
„Þegar það rignir um helgar þá höldum við okkur bara heima. Krakkarnir horfa á teiknimyndir eða fara í tölvuna. Þau eru jafnvel í náttfötunum fram eftir degi,“ segir Ásrún Brynja Ingvarsdóttir, fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu.
Kósíheit í rigningunni
Ásrún Brynja og maður hennar eiga þrjú börn; Berg 11 ára, Ingveldi Birnu 8 og Jóakim Árna 3ja ára.
„Þessi helgi hefur þó verið með öðru móti en aðrar rigningahelgar en Bergur var í Vatnaskógi fram á laugardag. Ingveldur var hjá vinkonu sinni allan laugardaginn, Bergur kom heim í hádeginu úr Vatnaskógi en Jóakim hefur ekkert viljað klæða sig. Ég notaði daginn til að kaupa skáp í eldhúsið á bland.is og gerði tilboð í páfagauk fyrir fjölskylduna,“ segir Ásrún. Þegar búið var að ná í Berg til KFUM eftir dvöl í Vatnaskógi á laugardag var komið við í bakaríi og ákveðið að hafa daginn kósí.
Já, það er sko gott að hafa það kósí í rigningunni!
[ad name=“POSTS“]