„Öll vötn virðast renna í átt að sjónvarpsskjánum. Þetta byrjaði allt á því að mig langaði að skammta strákunum mínum sjónvarpstímann. Mig langaði að fanga athygli þeirra, búa til minningar, njóta fleiri augnablika með þeim og mynda tengsl. Ég fann að þessi átakapunktur er viðkvæmur og vissi að ég þurfti að bjóða þeim uppá annan valmöguleika ef ég hef ákveðið að setja skjáinn tímabundið á svarta listann. Þeir kjósa yfirleitt aksjón og það skulu þeir líka fá“ segir Arnar Dan Kristjánsson, leikari en hann og eiginkona hans eiga saman tvo stráka, fimm og þriggja ára.
Spilið vekur athygli barna
Arnar stendur fyrir fjármögnun á spili í gegnum Karolina Fund, sem hann hefur þróað og hannað. Spilið inniheldur 190 leiki sem foreldrar geta gripið í þegar barn þeirra er í skjástuðinu. Einfaldir og skemmtilegir leikir sem Arnar telur vel vera samkeppnishæfa við alla þá ofgnótt afþeyingar sem hægt er að verða sér út um með sjónvarps og skjánotkun.
„Spilið er hugsað sem æfingartæki í að skerpa á þeim grunneiginleikum sem nauðsynlegt er að búa yfir, vilji maður búa í samfélagi manna. Leikurinn er góður skóli sem skerpir á allri félagsfærni. Við þjálfum samvinnu, það að bregðast við umhverfinu, lærum að takast á við tilfiningar okkar og hlusta á líðan annara. Leikgleðin og sköpunarkrafturinn þjálfar okkur í að mæta þessum þáttum í mildi,‟ segir hann.
Arnar hefur ásamt fleirum lagt mikla vinnu í hönnun spilsins til að gera það sem líflegast og skilvirkast.
„Ég lofa stemningu og geðtengslamyndun sem allir njóta góðs af,‟ segir hann.
Meiri sköpun í spili
Spilið heitir því skemmtilega nafni Hvað í pabbanum ert þú að gera? og vísar í þá spurningu sem Arnar spurði sjálfan sig að þegar honum var falið þetta stærsta hlutverk ferils síns.
Spurningarnar voru:
„Hvernig í pabbanum á ég að bera mig að hérna?” og
„Hvað í pabbanum á ég að gera?‟
Arnar segir skjáinn fínan en ekki í of miklum mæli.
„Mig langaði að taka virkan þátt í þroskaferli drengjanna minna og mér fannst leikurinn frábært verkfæri til að kynnast þeim og karakterseinkennum þeirra frekar,‟ segir hann og bætir við að það reyni á einstaklinginn þegar tekist er á við mótlæti, leikurinn þróast í allar áttir og spuni og flæði er meira en velkomið.
Leikirnir í spilinu eru miskrefjandi en allir frá 3ja- 90 ættu að geta tekið þátt. Það eina sem þarf til er viljinn til að leika sér, að sögn Arnars.
Dæmi um það hvernig spilið virkar:
- Barn suðar.
- Spilið ,,Hvað í pabbanum ert þú að gera“ er þá dregið fram.
- Barnið dregur spil úr stokki.
- Leitað er uppi númer spjalds í bæklingi og leikreglur skoðaðar, max 4 línur.
- Undirbúningur hefst, þátttakendur leita að því sem þarf í leikinn.
- Leikur spilaður.
Þetta getur komið upp og svona er unnið úr þeim.
- Spurning: Má ég fara í símann?…
- Svar: Nei ekki núna, en drögum leik…
- Spurning: Má ég fara í tölvuna?
- Svar: Nei ekki núna, en drögum leik.
- Spurning: Má ég horfa á sjónvarpið?…
- Svar: Nei ekki núna, en drögum leik.
- Spurning: Má ég fara í Ipadinn?…
- Svar: Nei ekki núna, en drögum leik.
Raða klósettpappír með fótunum
Arnar segir leikinn bjóða upp á marga möguleika. Hann auðgi bæði ímyndunarafl og sé frábær líkamsþjálfun.
Á meðal leikjanna minnist Arnar á leik sem felur í sér að koma boltum fyrir uppá klósettrúllum með tánum á tíma. Sá leikur er til dæmis frábær magaæfing og megafjör. Það krefst samhæfingar augna og fóta. Krakkarnir æfa sig í að telja, þjálfa fínhreyfingar, þolinmæði, læra á sekiðklukku, virkja magavöðvana og ýmislegt fleira. Ávinningurinn er endalaus.
„Okkur feðgunum finnst skemmtilegra að falla eins og Bessi í hvolpasveitinni í stað þess að horfa á hann gera það í hundraðasta skiptið,‟ bætir Arnar við.
Fjármagnar spilið á Karolina Fund
Arnar segir söfnunina hafa gengið afar vel og bætir við að áhugasamir hafa enn 10 daga til að forpanta spilið í gegnum Karolina Fund. Markmiðið er að það komi út fyrir jólin 2021 og smellpassar í alla betri pakka undir tré og í skó.
„Ég hef verið í samtali við framleiðendur, fengið prufur og fleira. Þetta er mjög spennandi, sérstaklega þar ég finn fyrir miklum meðbyr og tel vera þörf á þessum djúsí hugmyndabanka. Þetta gæti þess vegna plumað sig á alþjóðamarkaði,‟ bætir hann við og hlær.
Hér má fræðast frekar um spilið og auðvitað styðja við útgáfu þess svo það geti orðið að veruleika. Frábært framtak og spennandi að fylgjast með þessu ferðalagi.
Tékkið á: Hvað í pabbanum ertu að gera? á Karolina Fund
