Það var ótrúlega gaman hjá bræðrunum Óðni Braga og Úlfi Inga og vini þeirra Ísar Erni á námskeiði í tálgun á Árbæjarsafni í vikunni undir handleiðslu Bjarna Þórs Kristjánssonar. Árbæjarsafn býður upp á námskeiðið í júlí og er það ætlað börnum 6-12 ára. Ætlast er til þess að börn yngri en 8 ára séu í fylgd með fullorðnum.
Það er gaman að kunna að tálga eitthvað fallegt úr tré.
Á námskeiðinu lærðu bræðurnir Óðinn og Úlfur og Ísar vinur þeirra að umgangast hnífinn, réttu handbrögðin við að tálga og lærðu að bora með gamaldags handbor.
Þeir þrír og hinir krakkarnir á námskeiðinu bjuggu til flugnaspaða, götuðu leður og fengu líka að negla og hnoða.
Í lokin var svo kveiktur lítill varðeldur og grillað brauð á trjágrein.
Námskeiðið í tálgun á Árbæjarsafni kostar 2.000 krónur fyrir hvert barn. Allt efni er innifalið í verðinu.
Fylgist með því á vef Árbæjarsafns og Facebook-síðu safnsins hvenær boðið er upp á námskeið í tálgun á safninu.
Hægt er líka að panta námskeið í síma 411 6320 og komast aðeins sjö börn á hvert námskeið.
Hvað vitið þið um Árbæjarsafn?
Úllendúllen elskar Árbæjarsafn og hefur fjallað margoft um þennan skemmtilega stað sem heldur fortíðinni í horfinu.
HÉR ER ALLT Á ÚLLENDÚLLEN UM ÁRBÆJARSAFN!