Anna á jólunum: Man allt sem ég gerði með pabba

Anna Rut með sínum elskulega Pottasleiki á Þjóðminjasafninu.

Anna Rut með sínum elskulega Pottasleiki á Þjóðminjasafninu.

Það er misjafnt hvað fólk gerir um jólin og hvort það kemst yfirleitt í jólaskap í aðdraganda jóla.

Anna Rut Guðmundsdóttir, kynningarstjóri Þjóðminjasafnsins, nýtur frísins með konunni og öllum börnunum þeirra um jólin. Anna mælir með samveru fjölskyldunnar um jólin. Henni finnst besta jólagjöfin að vera í fríi á milli jóla og nýárs. Anna ætlar að slappa af í fríinu, spila með fjölskyldunni og taka einn FIFA-leik með syni sínum.

Nóg er að gera á Þjóðminjasafninu í aðdraganda jólanna. Eins og allir vita koma jólasveinarnir hver á fætur öðrum til byggða fram að jólum fram á aðfangadag. Það sama á við um jólasveinana sem koma á Þjóðminjasafnið. Á hverjum degi klukkan 11 fram að jólum kemur einn af íslensku jólasveinunum og gantast við gesti safnsins í um hálftíma.

Anna mælir með því að fólk komi á Þjóðminjasafnið taki á móti jólasveinunum með börnum sínum ef það hefur tíma. Opið verður á safninu á afangadag þegar Kertasníkir kemur til byggða og upplagt að koma þar við þegar skutlast er með síðustu jólakortin til vina og vandamanna á þessum hátíðlega degi.

Spyrjum nú Önnu út í jólin.

 

Hvað fannst þér gaman að gera á jólunum í æsku?

„Það var alltaf mikill spenningur í desember og ég gerði margt skemmtilegt í aðdraganda jólanna. Það sem ég man helst eftir var allt sem ég gerði með pabba mínum heitnum.  Á hverju ári skreyttum við heima  steinvegg með jólaperum. Það tók oft 2-3 klukkutíma og ég var oft mjög pirruð að þurfa að vera halda á seríum á meðan pabbi hengdi þær við vegginn og svo duttu þær jafnóðum niður. En samt vildi ég aldrei sleppa þessu.

Barnaleiðsögn Þjóðminjasafn Þjóðminjasafn Íslands

Á Þorláksmessu var alltaf sérstaklega skemmtilegt. Þá fór ég með pabba niðrí bæ um kvöldið. Við löbbuðum niður Laugaveginn, oftar en ekki að athuga með jólagjöf fyrir mömmu. Síðan fórum við niður á Lækjargötu þar sem Krabbameinsfélagið var að selja happadrættismiða út úr bíl. Pabbi keypti alltaf miða fyrir 50-100 þúsund krónur.

Ég man eftir nokkrum skiptum þar sem maðurinn kom grátandi útúr bílnum til að þakka fyrir.

Svo fórum við í Lúllabúð á Hverfisgötu þar sem pabbi keypti 100 happaþrennur handa mér og kók í gleri og fullt af nammi.  Mér fannst líka alltaf gaman á jóladag en þá kom stórfjölskyldan í jólaboð heim til mömmu og pabba.

Þar sem ég er yngst þá þótti mér gaman að fá systkini mín í heimsókn með öll börnin sín. Ég átti líka hund sem ég hafði gaman af að klæða upp í jólasveinabúning og leika með hann. Hann fékk líka alltaf jólagjafir sem hann opnaði sjálfur.“

Hvað finnst þér gaman að gera á aðventunni og jólunum í dag?

„Í dag finnst mér mest gaman að vera með börnunum mínum að föndra og hlusta á jólalög saman og fara með þeim að velja jólagjafir fyrir vini og aðra í fjölskyldunni. Svo málum við yfirleitt piparkökur. Það besta er svo að geta verið heima á milli jóla og nýars með krökkunum. Þá getum við legið í leti saman. En vinnuveitandi minn gefur starfsfólki sínu frí milli jóla og nýárs í jólagjöf og það er besta jólagjöf sem hægt er að hugsa sér.“

Hvað finnst þér gaman að gera á aðventunni og jólunum í dag?

„Ég fer í jólaskap, yfirleitt í hádeginu á Þorláksmessu en þá borða ég alltaf vel kæsta vestfirska skötu sem mér finnst betri en nokkur annar jólamatur. Svo er ég líka mjög fljót að fara úr jólaskapi og vil helst taka jólatréð niður 1 janúar.“

Með hverju mælirðu fyrir fjölskylduna um jólin?

„Ég mæli með samveru um jólin. Bara vera heima. Maður þarf ekki alltaf að vera gera eitthvað.  Reynið endilega að forðast alla þessa tugi viðburða sem eru í gangi og slakið frekar á heima og föndrið, spilið eða gerið eitthvað skemmtilegt.  Ég mæli samt með að koma í Þjóðminjasafnið á aðfangadag, það er svo hátíðlegt þegar Kertasníkir mætir.“

Hefurðu verið i öðrum löndum um jólin?

„Nei aldrei verið í öðrum löndum. En væri til í að vera á Flórída í hita og á strönd.“

Hvað gerirðu um jólin núna?

„Ég er heima á aðfangadag með konunni minni , börnum og tengdapabba. Við erum með fjögur börn svo það verður skemmtilegt. Svo verður eitthvað um jólaboð en annars ætla ég bara að slaka á með fjölskyldunni. Vonandi næ ég að lesa eina bók, svo verður örugglega eitthvað spilað og klárlega tekin einn FIFA leikur í Playstation með syninum.“

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd