Listir og skemmtilegir menningarlegir viðburðir krydda helgina sem er framundan. Listahátíð í Reykjavík stendur nefnilega enn yfir og er það algjörlega frábær viðburður fyrir alla fjölskylduna. Það er nefnilega fátt betra til að bæta andann, þekkinguna og bara lífið allt en list sem auðgar. Hún bætir og kætir eins og sagt var um Ópalið í gamla daga.
Listahátíð í Reykjavík kaffærir auðvitað ekki allt annað. Frábærir sprelligosar eru komnir í gírinn eins og leikhópurinn Lotta. Svo er líka skemmtileg fjölskyldusmiðja í Gerðarsafni í Kópavogi.
En fátt er leiðinlegra en að láta mata sig á viðburðum. Fjölskyldan getur gert margt skemmtilegt fyrir utan Listahátíð og skipulagða viðburði.
Það er til dæmis hægt að fara í göngu- og hjólatúra og skoða listaverkin í umhverfinu, prófa leikvelli og æfingatæki sem er búið að setja upp um allt eða fara í frisbígolf en víða eru vellir fyrir alla fjölskylduna. Það er nefnilega ótrúlega gaman að fara í frisbígolf. Svo er hægt að fara á bílnum niður í bæ og skoða listaverkin sem eru víða á veggjum og fólk tekur ekki eftir í amstri hversdagsins. Í bílakjallara Seðlabankans við Kalkofnsveg eru til dæmis frábærar myndir málaðar á veggina.
Við skoðuðum það einu sinni: Myndlist í felum undir Seðlabankanum
Leikhópurinn Lotta er kominn á kreik á nýjan leik. Nú er það leikritið um Gosa sem hópurinn sýnir þjóðinni um allar koppagrundir. Við fundum auðvitað út hvar leikhópurinn verður hverju sinni: Hvar er leikhópurinn Lotta í dag?
Svo er alltaf gaman að leita að skemmtilegum dýrum. Við Elliðaárdalinn eru alveg hellingur af kanínum: Kanínur er kát og krúttleg dýr
Það er líka alltaf hægt að fara í frisbígolf. Það er frábær leikur og vellirnir eru bókstaflega útum allt: Allt um frisbígolf og vellina
Heiðmörk er líka algjör ævintýrastaður fyrir fjölskylduna. Þar er til dæmis hægt að fara í ratleik: Ratleikur fyrir alla fjölskylduna
Dagskráin um helgina
Laugardagur
- Leikhópurinn Lotta er á svaka þeysireið þessa dagana. Klukkan 11 á laugardag er hópurinn á Höfn í Hornafirði og síðar um daginn á Djúpavogi. Hér verður leikhópurinn Lotta á Austurlandi og víðar
- Fjölskyldustund í Gerðarsafni í Kópavogi sem fer fram á íslensku, arabísku, frönsku og ensku. Í aðalhlutverki eru ferðalög listakonunnar Gerðar Helgadóttur. Meira hér: Frábær fjölskyldusmiðja í Kópavogi
- Kindahópurinn í Transhumance kemur fram í Veröld – húsi Vigdísar í tvígang bæði á laugardag og sunnudag. Þetta verður frábær viðburður. Meira hér: Kindurnar á Listahátíð
- Þeir sem vilja geta komið í Ráðhúsið í Reykjavík um helgina og búið til teppahús. Tékkið á Teppaborginni í Reykjavík
Sunnudagur
- Leikhópurinn Lotta treður auðvitað aftur upp á sunnudag. Nú verður leikritið um spýtukallinn Gosa sett upp á Reyðarfirði og Egilsstöðum. Hvar verður þetta leikrit?
- Mannlegu kindurnar koma aftur fram í Veröld – húsi Vigdísar á sunnudeginum
- Teppaborgin verður ennþá í Ráðhúsinu í Reykjavík. Flytjum inn í teppaborg
- Frábær tónlistarsmiðja verður í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi. Tónlistarsmiðjan heitir Spunavélin og er frábær
- Verkið Hjálmurinn er ansi spennandi blanda af leiklist og tónlist sem verður sett upp í Tjarnarbíói. Tékkið á Hjálminum
Hvað ætlið þið að gera um helgina? Þið getið sent okkur línu hvenær sem er á Facebook eða í tölvupósti á netfangið ullendullen@ullendullen.is. Svo er alltaf hægt að gera áskrifandi að vikulegu fréttabréfi þar sem enn fleira kemur fram.
Gerast áskrifandi að fréttabréfi Úllendúllen