Ævar Þór: Áfram barnabækur!

Ævar Þór Benediktsson

Fjölmörg börn í fylgd með fullorðnum komu í útgáfuboð Ævar Þórs Benediktssonar sem hann hélt í verslun Pennans Eymundsson í Kringlunni í tilefni af útgáfu bókarinnar Þín eigin hrollvekja. Þetta er þriðja bók Ævars Þórs í bókaflokknum Þín eigin… Þetta eru frábærar bækur og engin furða að þær hafi fengið  Bókaverðlaun barnanna og verðlaun bóksala.

Áður en útgáfuboðið hófst var komin löng röð af börnum og fullorðnum sem fylgdust með Ævari Þór undirbúa sig. Þegar klukkan sló útgáfuboð bauð Ævar Þór gesti velkomna. Hann sagði ótrúlegt hvað margir krakkar hafi lagt út í leiðindaveðrið (úti var rok og rigning) til að hlusta á hann lesa úr bókinn og fá áritað eintak. Ævar sagði þetta merki um það að börnum finnist enn gaman að lesa og sagði hátt og snjallt: „Áfram barnabækur!“

Ævar Þór Benediktsson

Ævar sagði líka frá því að þegar hann var barn í Borgarfirði hafi hann haft áhuga á hryllingssögum.

Margir aðdáendur bóka Ævars voru í grímubúningum og fengu nokkrir þeirra sem komu í útgáfuboðið í flottustu búningunum gefins eintak af bókinni. Þrír búningar vöktu heilmikla athygli. Einn gesta í útgáfuboðinu var í búningi Draugabana í kvikmyndinni Ghostbusters, annar í búningi Rauðhettu og sá þriðji sem uppvakningur.

Sjá má fleiri myndir og umfjöllun um útgáfuboðið á vefsíðu Ævars Þórs.

Ævar er góðvinur Úllendúllen og hefur nokkrum sinnum verið í viðtali. Fyrir nokkru sagði hann um áhuga sinn á bókum:

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á barnaefni og er mikill lestrarhestur. Svo er líka bara fárálega gaman að búa til og segja sögur. Auk þess er tilfinningin að halda á bók sem maður hefur sjálfur skrifað eiginlega ólýsanleg – þannig að það spilar margt inn í. Bróðir minn, Guðni Líndal barnabókahöfundur og kvikmyndagerðarmaður, er svona líka. Kannski var eitthvað í vatninu heima í sveit þegar við vorum litlir.“

Ævar Þór segir fátt verra fyrir börn en leiðinleg bók.

Ævar Þór Benediktsson

 

 

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd