Ætlið þið að borða skötu?

2015-12-09 12.15.41 copy

Nú er þessi tími að nálgast. Þorláksmessan er dagurinn sem misgóður angan læðist út um eldhúsglugga landsmanna og í föt þeirra sem fara á veitingastað til að snæða skötu.

Þau eru mörg sem ekki geta hugsað sér Þorláksmessu án kæstrar skötu. Fái þeir ekki að smakka á þessum undarlega fiski þá hreinlega komast þau ekki í jólaskap.

Ætlið þið að borða skötu?

Margir eru hættir að elda skötu í eldhúsinu heima hjá sér. Það er auðvitað af helberri tillitssemi fyrir nágrönnunum. Þess í stað fara þeir á veitingastað þar sem fá má miskæsta skötu. Sumir gera þetta meira að segja að reglu.

Það getur verið skemmtileg stund hjá fjölskyldunni að fara á einn af þeim veitingastöðum sem bjóða upp á skötu. Það þarf ekki að vera til að fá sér bita heldur aðeins til að finna lyktina. Það getur nefnilega verið afskaplega gaman að fara með börn á veitingastað sem býður upp á skötu og leyfa þeim að finna lyktina, sem er vægast sagt í sérkennilegri kantinum.

En hvers vegna borðar fólk skötu?

Fram kemur á Vísindavefnum að í kaþólskum sið var fasta fyrir jólin og átti þá ekki að borða mikið góðgæti og einna síst á Þorláksmessu. Mikill munur átti að vera á föstumat og jólakræsingunum sem voru handan við hornið. Auk þess þótti ekki vera við hæfi að borða kjöt á dánardegi heilags Þorláks.

Aðalreglan var því að borða lélegt fiskmeti á Þorláksmessu. Misjafnt var þó hvað hentaði hverjum stað. Á Suðurlandi var sumstaðar soðinn horaðasti harðfiskurinn sem til var.

Í kringum jólin var veiddist einkum skata á Vestfjarðamiðum. Hún þótti enginn herramannsmatur ótilhöfð og var því algengur Þorláksmessumatur enda alveg í takt við það sem fyrr sagði, að á Þorláksmessu skyldi borða vondan mat.

Vondur matur verður skárri

Á Vísindavefnum segir svo að eftir því sem tímanum leið tókst Vestfirðingum að tilreiða úr skötunni mikið ljúfmeti eins og skötustöppu, sem þykir nokkuð skárri en sá vondi matur sem var á borðum Vestfirðinga fyrr á öldum.

Og þar hafið þið það. Það er ekki venja að fá sér gott að borða á Þorláksmessu!

Það er góð hugmynd að rifja upp fortíðina og fara með börnin eða barnabörnin á veitingastað sem býður upp á soðna kæsta skötu.

Verði ykkur að góðu.

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd